Andrea er fatahönnuður og annar eigandi AndreA ásamt eiginmanni sínum, Óla Óla. Saman eiga þau tvö börn, Magnús Andra 22 ára og Ísabellu Maríu 15 ára. Þau reka tvær verslanir í Hafnarfirði, AndreA fataverslunina sem er orðin 11 ára og AndreA skóverslunina sem þau opnuðu í maí. „Við stofnuðum vörumerkið AndreA árið 2008 og opnuðum okkar fyrstu verslun 2009. AndreA hannar og framleiðir fatnað og fylgihluti en ásamt því seljum við einnig í verslunum okkar vel valin merki,“ segir Andrea sem nýtur sín í hönnun og framleiðslu.

Framtíðarstarfið lá alltaf í loftinu

Andrea segir það í raun ávallt hafa legið í loftinu að hún færi út í hönnun. „Ég ólst upp við það að allir kunnu að sauma og skapa. Ömmur mínar voru báðar klæðskerar og mamma náttúrutalent. Ég þekki ekki annað en að geta skapað nákvæmlega það sem mig langar í. Lengi vel lagði ég bara inn pantanir, fékk að velja efni, lit og snið og svo var það saumað á mig. Allt frá hversdagsfötum í sparikjóla, kápur og upp í skíðagalla og íslenska upphlutinn. Ég byrjaði einnig að vinna snemma í tískubransanum, man varla eftir því að hafa unnið við annað enda verið í þessu síðastliðin 25 ár. Leynt og ljóst lá þetta alltaf í loftinu, ég gerði þetta kannski ekki í alveg réttri röð en ég vann í mörg ár í tískubransanum áður en ég lærði fatahönnun. Þau ár eru mér dýrmæt reynsla sem hjálpa mér ekki síður en námið í dag.“

Hvar færðu innblásturinn í hönnun þína?

„Innblástur kemur alls staðar að og oftast þegar ég á síst von á því. Ég fæ yfirleitt bestu hugmyndirnar þegar ég er ekki að vinna. Til dæmis í fjallgöngu, fríi, já og í sturtu.“ Andrea segist þurfa að passa vel upp á sig því að þegar hún er þreytt þá sé hún ekki upp á sitt besta. „Upp á síðkastið hef ég aðallega verið að skoða gamlar flíkur úr eigin smiðju og er búin að endurgera í nýrri útgáfu nokkrar flíkur frá fyrstu árunum okkar. Eins fæ ég oft innblástur frá samstarfsfólki og viðskiptavinum, mér finnst mikilvægt að hlusta vel á óskir þeirra sem er einmitt ástæðan fyrir því að ég er að taka gömlu sniðin upp aftur núna.“

„Ef þú átt slæman dag, prófaðu þá að fara í fínasta kjólinn þinn. Já, þótt þú sért ekki að fara neitt og sért bara heima, það er öðruvísi. Það kemur einhver orka með fallegri flík,“ segir Andrea sem er alin upp við að sauma og hanna flíkur.
Mynd/Aldís Pálsdóttir

Er frekar litaglöð og elskar að vera í fallegum kjólum

Þegar Andrea er spurð hvort hún hafi alltaf haft skoðun á því hvernig fötum hún vilji klæðast er því fljótsvarað. „Já, er stutta svar við þessari spurningu. Ég hef alltaf vitað nákvæmlega hvað ég vil varðandi klæðaburð og elska að klæða mig upp. Ég held að ég hafi fattað það í Covid að ég klæði mig fyrir mig. Ég fann það fljótt í samkomubanninu að ég átti betri daga þegar ég klæddi mig upp og tók mig til þó að ég væri ekki að fara hitta neinn. Mér líður einfaldlega miklu betur í fallegum fötum og dagurinn minn verður öðruvísi. Ef þú ert til að mynda að eiga slæman dag, prófaðu þá að fara í fínasta kjólinn þinn. Já, þótt þú sért ekki að fara neitt og ert bara heima, það er öðruvísi. Það kemur einhver orka með fallegri flík.“

Andrea segir fatastíl sinn vera misjafnan eftir dögum og að hún klæði sig gjarnan eftir skapi hverju sinni.

„Ég er frekar litaglöð, vel sjaldnast svart af því að mér þykir svartur gera minnst fyrir mig, klæðir mig síst. Ég klæði mig pínu eftir skapi og á erfitt með að ákveða degi áður í hverju ég ætla að vera. Ég elska að vera í kjólum, þeir eru í senn þægilegasti og fínasti klæðnaður sem maður fer í. Aðalatriðið er að mér líði vel í flíkinni, sama gildir um skó.

Ef maður er í óþægilegum skóm eða á of háum hælum þá verður líkamsstaðan öll brengluð og útlitið eftir því. Þegar manni líður vel í flík þá er maður afslappaðari, glaðari og þar af leiðandi flottari. Ég reyni að gera sniðin okkar þannig að það sé meðal annars slaki, fellingar eða plíseringar við magann og vel mér yfirleitt þannig snið.“

„Þegar manni líður vel í flík þá er maður afslappaðari, glaðari og þar af leiðandi flottari,“ segir Andrea
Mynd/Aldís Pálsdóttir

Uppáhaldsliturinn er hvítur

Aðspurð segist Andrea halda upp á einstaka flíkur og það sé dagamunur á hvaða flíkur eru uppáhalds hverju sinni. „Ég tek ástfóstri við einstaka flíkur og nota þær mikið en það er samt mismunandi hvaða flík er í uppáhaldi hverju sinni. Akkúrat núna er ég mikið að nota leðurjakka og buxur frá AndreA, bæði saman sem dragt og sitt í hvoru lagi. Sniðið á jakkanum er í miklu uppáhaldi.“

Andrea á sér engan sérstakan uppáhalds hönnuð.

„Það er pínu eins og með sniðin, það er misjafnt hver heillar mig mest hverju sinni,“ segir hún og brosir. Sama á við tískuvörumerki, það sé í raun ekki eitthvað eitt. „Mér finnst alltaf flottasti stíllinn þegar fólk kann að blanda þessu öllu hæfilega saman. Eitthvað gamalt – eitthvað nýtt.“

Fylgir þú tískustraumunum hverju sinni þegar kemur að litavali eða áttu þér þína uppáhalds liti sem þér finnast klæða þig best?

„Ég vel ávallt liti, bæði bjarta, jarðtóna og pastelliti en skoða síðast svart, mér finnst hann mest óspennandi liturinn. Til dæmis þegar ég skoða skó þá kíki ég alltaf síðast á svarta og kaupi þá sjaldnast af því mér finnst skór yfirleitt fallegri í lit. Akkúrat núna er ég mjög mikið fyrir jarðtónaliti eins og beige og brúnt bæði í fatnaði, skóm og töskum. En ef ég á að velja einn lit sem er alltaf í uppáhaldi hjá mér þá er það hvítur.“

Falleg kápa frá Andreu en hún hugsar fataskápinn út frá þægindum.
Mynd/Aldís Pálsdóttir

Támjóir skór í öllum litum

Andrea er mjög heilluð af skóm og þegar hún er beðin að lýsa skótískunni sem hún heillast helst af ljómar hún öll. „Támjóir hælar í öllum litum og gerðum. Skór með fallegum smáatriðum í fallegum litum gera eitthvað fyrir mig ásamt hvítum strigaskóm. Fyrir haustið er ég spenntust fyrir grófum stígvélum.“

Þegar þú velur þér fylgihluti hvað finnst þér vera ómissandi að eiga í dag?

„Ég stend sjálfa mig oftar og oftar að því að fara töskulaus út, bara með gloss í vasanum og restin er í símanum, kortin til að mynda. Dagsdaglega er ég þó með „tankinn“ sem er stór taska sem rúmar allt mitt hafurtask, tölvu, skissubækur og yfirleitt nokkrar flíkur „sýnishorn“. Þannig að ómissandi fylgihlutur fyrir utan símann er sennilega taska,“ segir Andrea og brosir sínu breiðasta.

Andrea er ófeimin við að nota liti en er ekkert fyrir svartan.
Mynd/Aldís Pálsdóttir
Fallegt skart skiptir máli þegar maður klæðir sig upp.
Mynd/Aldís Pálsdóttir