Bölvun múmíunnar – seinni hluti – er bók eftir Ármann Jakobsson; framhald af bók með sama heiti sem kom út í fyrra.

„Í raun og veru er þetta ein saga en sett í tvær bækur, bæði vegna þess að það stefndi í að hún yrði löng en svo eru eðlileg skil í miðjunni,“ segir Ármann. „Ég held að helsta fyrirmynd mín hafi verið Ævintýri Tinna eftir Hergé. Þrjár Tinnasögur eru í tveimur hlutum og gerist sá fyrri í evrópskri siðmenningu en sá seinni á fjarlægum slóðum. Mér fannst tilvalið að stela þessu góða formi frá Hergé.“

En af hverju vildi hann skrifa múmíusögu? „Bækurnar urðu raunar til þannig að mig dreymdi dularfull atvik á þjóðminjasafni og þegar ég vaknaði fannst mér hálfgerð skylda að reyna að nýta þennan litríka draum í sögu. Það var fyrir mörgum árum og í kjölfarið fór ég að skrifa þessa múmíusögu, og það var nátengt gömlum áhuga mínum á Tútankamon faraó og sögnum um bölvun sem hefði fylgt múmíu hans þegar hún fannst og var flutt til Evrópu. Múmíur eru áhugaverðar þar sem þær eru í senn fulltrúar dauða og framhaldslífs og ég hef komist að því eftir að bókin kom út að mörgum börnum finnst þær heillandi.“

Spurður um söguþráð bókanna segir Ármann: „Fyrri bókin snerist um dularfullan söfnuð kenndan við goðveru að nafni Qwacha sem fáar heimildir eru til um. Í lokin tókst þeim að ræna múmíunni og í þessari bók fara söguhetjurnar í sjóferð og finna múmíuna en ekki tekst betur til en að þeim er sjálfum rænt. Drjúgan hluta bókarinnar eru þau innilokuð og komast ekki neitt – að því leyti passar bókin vel fyrir árið 2020 þar sem drjúgur hluti mannkynsins var í einangrun heima.“

Ármann segist ekki hafa velt því mikið fyrir sér þegar hann skrifaði bækurnar hvaða aldurshópi þær hentuðu. „Þær virðast höfða mest til 12-15 ára. Ég held að þær geti sem best höfðað til fullorðinna líka og vona að þeir lesi með börnunum.“

Vitanlega er að finna óhugnað í bókunum. „Seinni bókin er öllu óhugnanlegri en sú fyrri, sem mér skilst þó að mörgum börnum finnist ansi skelfileg. Ég held að ég sé á svipuðum slóðum þar og ýmsir höfundar sem ég las sjálfur í bernsku og gangi ekkert lengra en þeir. Lesendum sjálfum er falið að botna óhugnaðinn. Allur ótti er í mannskollinum,“ segir Ármann.