Katrín er 25 ára og útskrifaðist úr listfræði við Háskóla Íslands síðasta sumar og starfar nú á Gerðarsafni í Kópavogi. Sambýlismaður hennar, Jón Helgi Ingvarsson, er 28 ára sjúkraþjálfari hjá Sjúkraþjálfun Íslands í Kringlunni.
„Ég hef alltaf haft brennandi áhuga á hönnun og listum og myndi segja að innanhússhönnun sé mitt stærsta áhugamál. Ég stefni á að fara í nám erlendis en það er draumur sem ég ætla að melta aðeins lengur. Mér finnst svo magnað hvað hlýleg og skemmtileg rými hafa góð áhrif á líðan okkar. Mér líður best í rýmum þar sem frumleiki, sjarmi og hlýleiki eru í fyrirrúmi. Við tókum þessa íbúð svolítið í gegn með góðri hjálp, við flotuðum, skiptum um parkett, máluðum, settum flísar í forstofuna og eldhúsið. Svo skiptum við um borðplötu í eldhúsinu, settum nýjar gluggakistur og skiptum um innréttingu á baðinu,“ segir Katrín.

„Ég aðhyllist ekki neinn sérstakan stíl heldur kaupi ég bara það sem mér finnst fallegt og oft smá öðruvísi, svo finn ég bara leið til að láta allt virka saman. Ég er eiginlega alltaf með fersk blóm heima, þau gefa mér svo mikið. Vil helst ekki taka það saman hvað ég eyði miklum pening í blóm á mánuði. Ég er ekkert rosalega mikil plöntumanneskja en falleg monstera finnst mér gefa heimilinu skemmtilegan blæ.“
Aðspurð segir Katrín hjarta heimilisins klárlega vera eldhúsið. „Þar eru svo dýrmætar samverustundir. Ég enda einhvern veginn alltaf við eldhúsborðið, sama hvort ég er að spjalla, læra eða slaka á. Mér finnst ómissandi að vera með góða kaffivél, góða potta og pönnur.“

Litir í mestu uppáhaldi
Fallegir og hlýir litir prýða veggi heimilisins. „Þegar við vorum að velja litina á veggina þá vildi ég hlýlega brúna og beige tóna. Mér finnst þessir brúnu tónar svo mikið fallegri en gráir og hvítir sem eru kannski algengari. Mér finnst allir litir fallegir en það eru tveir litir sem fara rosalega í mig og það eru rauður og grár þannig að ég reyni að kaupa sem minnst af þeim litum. Bleikur, appelsínugulur og brúnn eru í miklu uppáhaldi.“
Katrín hefur gaman af því að blanda saman alls konar efnum í húsgögnum. „Mér finnst til að mynda mjög fallegt að blanda saman ólíkum við. Eikar-borðplatan og eldhúsborðið finnst mér virka mjög vel saman þó að viðurinn sé alls ekki eins á litinn. Púðar og teppi gefa stofunni eitthvað extra sem gerir svo mikið.“

Söfnunaráráttan er líka til staðar. „Við erum að safna Royal Copenhagen-stellinu og það bætist hægt og rólega í það. Ég er líka að safna alls konar skeljum, kuðungum og svönum, það er mjög skemmtilegt.“
Með loftbelg í stofunni
„Uppáhalds smáhlutirnir eru flestallir úr Góða hirðinum eða keyptir notaðir eins og til dæmis bleika Smeg-brauðristin sem er í miklu uppáhaldi. Ég held mikið upp á loftbelginn í stofunni, við keyptum hann þegar við byrjuðum að búa saman og vorum í íbúð með mikilli lofthæð á Laugaveginum þar sem hann naut sín vel. Hann fékk að koma með í þessa íbúð og hann er alltaf jafn skemmtilegur, þótt hann sé aðeins farinn að gulna greyið.
Af stærri hlutunum er sófaborðið úr Tekk og rattan-gólflampinn úr Ungfrúnni góðu uppáhalds.

Stórir gluggar gefa íbúðinni mikla birtu sem Katrínu finnst vera svo dýrmætt. „Franski glugginn, rósettan og loftlistarnir gefa íbúðinni einnig mikinn sjarma. Svefnherbergið er lítið og kemst lítið annað fyrir en rúm en við náðum að koma fyrir borðtölvu sem er í litlu skoti í herberginu.“

Þingholtin draumastaðsetning
Þegar kom að því að velja staðsetninguna á heimilinu réð hverfið miklu. „Stór partur af hverju við heilluðumst af íbúðinni var hverfið, Laugardalurinn. Hverfið er einstakt og ég er fædd og uppalin hér. Hér er maður nálægt allri þjónustu, Grasagarðinum og fleiri skemmtilegum stöðum. Þingholtin í miðbæ Reykjavíkur eru þó ákveðin draumastaðsetning og vona ég að við munum enda þar einhvern tímann. Menning, listir og skemmtileg kaffihús er það sem heillar mest við það að búa í miðbænum og auðvitað stemningin.“



