Á sumrin er gaman að spóka sig í fallegum sundfötum, hvort sem það er á fjarlægri strönd eða í íslenskri laug. Á sýningunni í París gengu fyrirsæturnar eftir tískusýningarpalli á bát sem sigldi eftir ánni Signu og sýndu sundföt frá Baobab.

Sundfötin eru mjög stílhrein og klæðileg, einlit og oft í sterkum fallegum lit.

Fyrirsætur í sundfötum frá Baobab á sýningu um borð í bát í París.

Gróðursetja tré fyrir selda flík

Baobab er ekkert venjulegt tískuvörumerki. Þetta kólumbíska sundfatamerki var stofnað árið 2017 af Isabellu Espinoza, en hún hefur brennandi áhuga á sjálfbærri nýsköpun. Vörumerkið leggur mikla áherslu á að vernda náttúruna og sjálfbærni er í forgangi á öllum stigum framleiðslunnar. Meðal annars lofa framleiðendurnir því að fyrir hver keypt sundföt gróðursetji þeir eitt tré. Einnig lofa þeir að engin vatnssóun verði við framleiðsluna og að hluti ágóðans af sölu sundfatanna fari í að hjálpa til við að bjarga San Andrés kóralrifinu í Kólumbíu. Þannig vilja þeir vekja athygli á mikilvægi þess að gefa til baka til jarðarinnar og jafnframt vilja þeir auka ástríðu almennings fyrir náttúrunni.

Flíkinni er ætlað að draga fram náttúrulega fegurð þess sem ber hana.

Úr plasti og veiðinetum

Efnið í sundfötunum er sjálfbært og búið til úr plasti og veiðinetum úr sjónum. Plastið og veiðinetin eru endurunnin svo úr verða fáguð efni í mjög fallegan sundfatnað eins og sést á meðfylgjandi myndum.

Hver einasta flík er saumuð af Kólumbíubúum og flíkinni er ætlað að draga fram náttúrulega fegurð þess sem ber hana. Hönnunin er innblásin af landslagi Kólumbíu, gróðri landsins og dýralífi, sem endurspegla sérstöðu þessa litríka lands.

Efnið í sundfötunum er sjálfbært og búið til úr endurunnu plasti og veiðinetum úr sjónum.