Það var ítalski tískuhönnuðurinn Gianni Versace sem kom merkinu á markað og varð það strax mjög vinsælt. Gianni stjórnaði tískuhúsinu af mikilli röggsemi eða allt þar til hann var myrtur í Miami árið 1997. Þá tók systir hans, Donatella Versace, við rekstrinum. Fyrirtækið á marga þekkta viðskiptavini og má til dæmis nefna Elton John. Versace var einnig í miklu uppáhaldi hjá Michael Jackson. Gianni átti sömuleiðis marga fræga vini en meðal þeirra voru Díana prinsessa, Eric Clapton og Madonna.

Haust- og vetrartíska Versace fyrir 2019-2020. Skemmtilegar litasamsetningar. NORDICPHOTOS/GETTY

Þegar Donatella Versace sýndi haust- og vetrarlínu fyrir 2019-2020 sagðist hún hafa hugsað mikið út í það líf sem við lifum í dag. Fólk er stöðugt á skjánum á Instagram og öðrum samfélagsmiðlum. Hún vildi sýna smá ófullkomnun sem hún segir að sé hin nýja fullkomnun. Hún sagðist hafa horft til tónlistarbransans í sköpun sinni allt aftur í tíunda áratuginn. Þetta er litríkur fatnaður og kannski svolítið villtur.

Donatella Versace segist hafa horft til tónlistar tíunda áratugarins þegar hún hannaði haustog vetrartískuna.

Árið 2000 vakti grænt Versace-dress sem Jennifer Lopez klæddist á Grammy-hátíðinni mikla athygli. Kjóllinn hefur verið sýndur sérstaklega á Grammy-safni í New York og hefur verið valinn einn frægasti kjóll allra tíma. Seint á síðasta ári var tilkynnt að fyrirtæki Michaels Kors hafi keypt öll hlutabréf í Versace. Í janúar á þessu ári gekk Versace til liðs við Capri Holdings Limited og stofnaði nýja tískukeðju með Michael Kors og Jimmy Choo. Þetta nýja félag á að höfða til yngri hóps og laða til sín nýja viðskiptavini. Donatella á enn í félaginu ásamt dóttur sinni og bróður. Ekki voru allir aðdáendur Versace hrifnir af sölunni og létu Donatellu heyra það á samfélagsmiðlum.

Nýju eigendurnir komu ekki nálægt haust- og vetrarlínunni 2019-2020 en búast má við að einhverjar breytingar verði þegar sumarlínan 2020 lítur dagsins ljós.