Kristín er fædd í Reykjavík, uppalin í Breiðholtinu. „Eftir stúdentspróf úr MR 1989 var ég ekki í nokkrum vafa, ég vissi að París var næsti áfangastaður og þangað fór ég sem aupair í eitt ár, en árin urðu mun fleiri. Ég lauk diplómunámi í myndbanda- og kvikmyndagerð og kom að gerð nokkurra stuttmynda sem skrifta og aðstoðarmaður klippara. Ég vann um hríð sem bóksali við Signubakka og síðar sem þjónn á veitingastað. Haustið 1995 ákvað ég að gefa Íslandi tækifæri á ný og flutti heim í október. Ég vann á Símanum í smá tíma en fór svo í Háskóla Íslands og tók BA-nám í frönsku,“ segir Kristín og bætir við að stoppaði á Íslandi hafi verið stutt.

París togaði fast

„París togaði fast í mig og ég vann þar á sumrin með náminu. Ég var skiptinemi í Montpellier einn vetur og skrifaði þar BA ritgerðina. Þegar ég flutti til baka til Parísar hóf ég samstarf við ferðaskrifstofuna Terra Nova og tók á móti hópum á þeirra vegum í nokkur ár. Þegar skrifstofan var seld lögðust skipulagðar ferðir til Parísar af en ég ákvað að halda áfram á eigin spýtur og Parísardaman.com varð til.“

Kristín hefur búið í París í yfir þrjátíu ár og hennar aðalstarf er leiðsögn. „Ég fer með Íslendinga í söguferðir um París eða dagsferðir út úr borginni. Er einmitt að fara með fjölskyldu til Versala á morgun og svo nokkrar vinkonur til Champagne á sunnudaginn,“ segir Kristín.

Selur bækur við Signubakka

Kristín á franskan eiginmann og tvö uppkomin börn, Sólrúnu tvítuga og Kára nítján ára. Kári stundar nú verkfræðinám í HÍ, en Sólrún er í laga- og heimspekinámi í Sorbonne ásamt framhaldsnámi í gítarleik. „Arnaud, eiginmaðurinn, ætti að vera að selja bækur við Signubakka í dag, en það er einfaldlega ekki sála á ferð vegna veðurblíðunnar,“ segir Kristín en þessa dagana er hitabylgja í París og hitinn ber borgarbúa yfirliði.

„Fyrsta árið mitt mætti ég spennt að sjá hersýninguna. Mér blöskraði algerlega þessi upphafning á hernum og hef eiginlega bara haldið upp á þetta í hjarta mínu síðan. Jú, við höfum gert okkur glaðan dag svo sem, hér í hverfinu er skemmtilegri fjölskylduskemmtun, sem oftast er haldin kvöldið fyrir Bastilludaginn góða.“

Pylsur og kandífloss

„Við förum á fjölskylduskemmtun í okkar hverfi, sem hefur ekkert með hersýningu forsetans að gera. Þar er hægt að fá sér pylsur og jafnvel kandífloss. Það er tónlistin sem ómar og gleðin er í fyrirúmi og klukkan ellefu brestur á með glæsilegri flugeldasýningu. Ég var hrifnust af stórum þrílitum flugeldum í gær, bleu, blanc rouge. Stórir hnettir sem voru bláir, hvítir og rauðir.“

„Börnin eru stödd í fríi með afa sínum á Sikiley og við hjónin erum bara að stússast hér heima við í dag, enda lítið hægt að gera vegna hitans,“ segir Kristín og bætir við að vegna hitabylgjunnar sé rólegra en ella.

Morgunverðurinn hjá Kristínu var spænskur að þessu sinni. „Tómati skellt í matvinnsluvél ásamt dropa af ólífuolíu og þessu hellt út á ristaða baguette. Í hádegismat fengum við okkur síðan gúrku- og tómatasalat, en maðurinn minn ætlar að elda kvöldmatinn og ég veit ekki enn hvað hann ætlar að bjóða mér upp á,“ segir Kristín og bíður spennt eftir að sjá hvað eiginmaðurinn mun töfra fram í tilefni dagsins.

Fyrir áhugasama þá er hægt að fylgjast með Parísardömunni, Kristínu á heimasíðunni hennar: www.parisardaman.com