Fatnaður og töskur frá Coco Chanel virðast aldrei fara úr tísku og fólk stendur jafnvel í biðröð eftir að komast inn í verslanir til að festa kaup á þeim, þrátt fyrir hátt verð. Um er að ræða sígilda hönnun, enda ganga dragtir og veski frá Chanel gjarnan í erfðir. Í sumarlínunni 2021 má sjá að áhrifa hennar gætir enn hjá tískuhúsinu, þótt í ár séu fimm áratugir frá því að Coco kvaddi þennan heim. Þar eru stuttir jakkar án kraga og klæðileg pils áberandi.

Ólst upp hjá nunnum

Fáum hefði dottið í hug að Gabrielle Bonheur, eins og Coco Chanel var skírð, myndi eiga eftir að fagna mikilli velgengni þegar hún fæddist þann 19. ágúst árið 1883 í Frakklandi. Foreldrar hennar voru litlum efnum búnir og móðirin lést þegar Coco var aðeins tólf ára. Faðirinn kom ungu dótturinni þá fyrir á munaðarleysingjahæli og lét sig hverfa á braut. Það var engin sæla að alast upp á slíku heimili sem var rekið af nunnum en þar lærði Coco að sauma. Sú kunnátta kom sér vel þegar hún byrjaði að hanna og sauma föt síðar á ævinni. Coco átti eftir að sækja innblástur í búningana sem hún og aðrar stelpur þurftu daglega að klæðast á munaðarleysingjahælinu. Það voru svartir kjólar með hvítum kraga. Síðar gekk hún í kristilegan heimavistarskóla og síðan lá leiðin í afgreiðslustörf.

Undirföt, sokkar og hattar

Fyrst fékk Coco vinnu við afgreiðslu í undirfata- og sokkaverslun en þegar hún var að nálgast þrítugt opnaði hún sína eigin hattaverslun. Þremur árum síðar, árið 1913, færði hún út kvíarnar og opnaði tískuverslun þar sem til sölu voru kjólar og prjónaflíkur. Ekki liðu nema tvö ár þar til Coco opnaði tískuhús og um ári síðar sýndi hún sína fyrstu fatalínu. Hún vakti mikla athygli fyrir óvenjulegt efnisval en hún notaði prjón og flannel í sína hönnun. Á þessum tíma var prjón helst notað í nærfatnað og vinnuföt, en ekki hátískufatnað, en Coco var heldur aldrei hrædd við að fara ótroðnar slóðir.

Coco Chanel í París árið 1959, hér fyrir miðri mynd.

Peysa varð að kjól

Ein fyrsta flíkin sem Coco hannaði og vakti óvænta athygli var kjóll sem hún bjó til úr gamalli jakkapeysu og klæddist á köldum degi. Kjóllinn vakti svo mikla eftirtekt að hún var beðin um að sauma fleiri slíka, sem hún og gerði. Síðar sagði Coco að velgengni sín byggðist á einni peysu, sem hún hefði klæðst því það var kalt úti.

Árið 1925 kynnti Coco til sögunnar kragalausan jakka og látlaust pils, sem enn í dag er vinsælt sem Chanel-dragtin. Hönnun þessi þótti byltingarkennd því hér var komin valdaflík fyrir konur, sem mótvægi við herrajakkaföt.

Svarti kjóllinn var einnig einkennisflík úr smiðju Coco Chanel. Fram að þeim tíma voru svartir kjólar álitnir sorgarklæði en henni tókst að breyta því þannig að svartur kjóll varð nánast skyldueign allra kvenna.

Tímalaust ilmvatn

Á þriðja áratug síðustu aldar setti Coco fyrsta ilmvatnið á markað, Chanel No. 5. Hún fékk fjárfesta með sér í lið við framleiðsluna á því en samdi í raun af sér, því þeir fengu níutíu prósent af öllum ágóða af sölu þess, en hún aðeins tíu prósent. Ilmvatnið hefur frá upphafi selst gríðarlega vel og er eitt það vinsælasta í heimi. Það varð ekki til að minnka vinsældirnar þegar sjálf Marilyn Monroe sagðist aðeins klæðast Chanel No. 5 þegar hún svæfi. Coco átti eftir að stefna þessum fjárfestum oftar en einu sinni til að fá þessum samningi hnekkt.

Eftir að Coco lést árið 1971 héldu vörur undir hennar nafni áfram að seljast vel en það var í raun ekki fyrr en eftir að þýski fatahönnuðurinn Karl Lagerfeld varð yfirhönnuður og síðar stjórnandi Chanel-tískuhússins að það hófst aftur til fyrri vegs og virðingar. Í dag er tískuhúsið í eigu Alain Wertheimer og Gérard Wertheimer en afi þeirra var Pierre Wertheimer, sem studdi Coco Chanel fjárhagslega á sínum tíma við að koma undir sig fótunum.

Díana prinsessa sást oftar en einu sinni í dragt frá Chanel. Hér er hún í einni slíkri, sem nú er komin á safn.