Fauk af barstólnum

Sverrir Bergmann söngvari

Sverrir Bergmann söngvari

„Ég er ekki með ártalið alveg á hreinu en minnir að það hafi verið 2002,“ segir tónlistarmaðurinn Sverrir Bergmann og rifjar upp tíma sinn á Þjóðhátíð þá helgi.

„Það var hræðilegt veður og þetta endaði á því að það þurfti að færa allt tjaldstæðið og fara með alla Þjóðhátíðargesti inn í íþróttahús.

Ég var að spila með Daysleeper og við vorum rosasvalir og sátum á barstólum uppi á sviði. Gítarleikarinn fauk svo bara næstum því niður og af sviðinu.

Svo fyrir ekkert svo mörgum árum þá rigndi alveg svakalega mikið á Þjóðhátíð og brekkan var eitthvert algjört ógeð og þá var ákveðið að bera sand í brekkuna til að hemja hana. Svo snöggþornaði, sólin mætti og svo rok um kvöldið og brekkan varð bara að færa sig því það fengu allir svo mikinn sand í augun. Þannig að brekkan var öll hægra megin og enginn í henni,“ segir Sverrir hlæjandi.

Hann spilar um helgina með FM95Blö og Albatross og segir alla peppaða. „Þetta verður ekkert eðlilega mikil veisla.“

Hlýjum okkur bara

Klara Elías söngkona

Klara Elías söngkona
Mynd/Sigtryggur Ari

„Fyrsta Þjóðhátíðin mín og fyrsta upplifunin, þá var sko heeeelllidemba. Ég var ekki í einni þurri flík. Ég rifja það samt upp sem bestu útihátíð sem ég hef farið á. Ég var tvítug og held ég sé ekki að ljúga að þér, að þetta hafi verið 2005 eða 2006. Þú getur örugglega bara fundið það með því að leita að því hvenær var versta veðrið, það var þá sem ég fór í fyrsta skiptið,“ segir Klara hlæjandi.

Hún segir það ekki skemma neitt fyrir á Þjóðhátíð, veðrið skipti einfaldlega engu máli. „Við erum bara þannig að þegar það er kalt og þegar það rignir þá finnum við bara aðrar leiðir til að hlýja okkur. Við kunnum að halda á okkur hita og hafa gaman og mætum bara tvíefld til leiks ef það rignir.“

Hún segir að sér sé alveg sama um mismunandi veðurspár fyrir helgina. „Mér er alveg sama! Ég held það skipti máli að ég hafi upplifað Eyjar áður og haft svo góða upplifun af þeim í þessu veðri, þannig að ég veit bara að það skiptir engu. Ég er bara á bleiku skýi yfir þessu landi, ég elska þetta land alveg sama hvernig viðrar – þetta er besta land í heimi