Gísli Ásgeirsson er framkvæmdastjóri og leiðsögumaður Six Rivers Iceland og hefur haft yfirumsjón með Fossgerði. Gísli er með ólæknandi veiðidellu og í raun útivistardellu. Hann nýtur þess að vera í umhverfinu sem veiðihúsið við Selá býður upp á og líður hvergi betur.

„Mér líður best úti undir beru lofti, helst í ósnertri íslenskri náttúru,“ segir Gísli sem hefur mikla ástríðu fyrir starfi sínu.

Þegar Gísli er beðinn um að segja frá ánni Selá og náttúruundrinu sem einkennir umhverfið stendur ekki á svörum.

„Við erum þeirrar skoðunar að Selá og árnar á Norðausturlandi séu þær bestu í heimi. Auðvitað erum við ekki alveg óhlutdræg en við nánari skoðun má færa mörg rök fyrir þeirri fullyrðingu okkar. Ósnert náttúra, stórir fiskar, vatnsmiklar ár og góður aðbúnaður,“ segir Gísli og bætir við að þau leggi mikla áherslu á að vera með framúrskarandi þjónustu fyrir gesti sína.

Munirnir sem prýða húsið eru margir úr þeirra safni í bland við muni sem fundust hjá antiksölum á Bretlandseyjum. Myndir á veggjum eru oft af Íslandi og með íslenska tengingu sem á vel við. MYND/GOLLI
Myndir/Golli

Í fyrra var farið í gagngerar endurbætur á veiðihúsinu Fossgerði, þrátt fyrir að ekki sé langt síðan húsið var byggt.

„Húsið var byggt og tekið í notkun árið 2012. Við sem stóðum að því að byggja húsið tókum mikla áhættu fjárhagslega með landeigendum og ef einhvers staðar var til sparað mætti segja að hönnun innanhúss hefði mátt vera betri þó ekki hafi verið kastað til höndunum við hana. Það var því þannig að þegar við sáum til lands fjárhagslega var tekin ákvörðun um að klára húsið að fullu,“ segir Gísli og er mjög ánægður með hvernig til tókst.

„Það sem vakti fyrir okkur var að bæta aðstöðuna með þeim hætti að gestir og veiðimenn gætu notið þess að verja tíma sínum inni við í afslöppun eða lestur bóka, í heimilislegu umhverfi þar sem stjanað er við veiðimenn.“

Aðbúnaður við Selá er allur eins og hann getur best orðið við veiðiá. Fossgerði stendur við ána og er útbúið öllum þægindum eins og á góðu fimm stjörnu hóteli í einstakri náttúruparadís.

Húsgögnin endurnýtt

Húsið er hannað af Helga Hjálmarssyni en um val á munum og uppsetningu innanhúss sá Nadine Bartholomew frá Noam arkitektum í London. Mikill metnaður var lagður í að hafa hönnunina sem umhverfisvænasta.

„Öll hönnun og tilhögun í rekstri miðar að því að skaða ekki umhverfið og það mun gilda um alla okkar starfsemi. Til dæmis eru húsgögn endurnýtt, efnisval er líka að hluta endurnýtanlegt og það sem boðið er upp á er úr nærumhverfinu. Litir eiga að falla inn í umhverfið og heildarhönnun er með þeim hætti að húsið kúri í umhverfinu, verði hluti þess en ekki aðskotahlutur. Öll atriði verða að falla að þessari hugmyndafræði; annars gengur hún ekki upp,“ segir Gísli.

Veggklæðningar eru úr eikarbitum úr járnbrautarteinum. Oft er um eik að ræða en gólfefni og veggklæðningar eru endurnýttir eikarbita úr gömlum járnbrautarteinum. MYND/GOLLI
Innréttingar innanhúss eru í bland íslensk smíð og hönnun, en líka notaðar einingar sem hafa gengið í endurnýjun lífdaga. MYND/GOLLI

Opna rýmið í Fossgerði er ekki svo mikið breytt frá því sem var, helst má nefna barinn sem er nýr.

„Við fundum fyrir þörf viðskiptavina í miðju hússins þar sem allir hittast, geta safnast saman og deilt sögum. Fallegur bar var því tilvalin lausn að okkar mati. Nýja svítan er líka vönduð viðbót í húsinu og íbúðin er einstaklega falleg,“ segir Gísli.

Húsið var upphaflega hannað með það að leiðarljósi að geta hýst ólíka hópa og er svítan partur af því. „Til að mynda gæti fjölskylda með börn eða tvenn hjón nýtt svítuna sem sitt afdrep frá öðrum í hópnum. Ekki síður erum við að gefa aðilum sem vilja vera heima kost á að líða vel í umhverfi sem minnir á veiðihús og heldur vel utan um gestina en gefur þeim kost á að njóta náttúrunnar með fallegu útsýni og beinni tengingu við Selá,“ segir Gísli og bætir við að einstaklega vel hafi tekist upp með svítuna í alla staði og útsýnið sé í raun draumi líkast, lifandi málverk blasi við út um gluggana sem fangi augað alla daga.

Í veiðihúsinu er dekrað við veiðifólk í mat og drykk. MYND/GOLLI
Hlýlegt og heimilislegt umhverfi sem skapar innri ró, arinn eldur og notaleg sæti og sófar. MYND/GOLLI

Virðing fyrir náttúrunni

Innréttingar innanhúss eru í bland íslensk smíði og hönnun, en einnig eru notaðar einingar sem gengið hafa í endurnýjun lífdaga. Oft er um eik að ræða en gólfefni og veggklæðningar eru endurnýttir eikarbitar úr gömlum járnbrautarteinum. Það er eins og hver einasti hlutur og hvert einasta smáatriði hafi verið útpælt. Sérstaklega fangar gamla veiðidótið augað.

Aðspurður segir Gísli þetta vera að einhverju leyti muni úr þeirra safni og eigu en líka munir sem fundust hjá antíksölum á Bretlandseyjum. Myndir á veggjum eru oft af Íslandi og með íslenska tengingu sem á vel við.

Í hverju rými er skírskotun í íslenska náttúru sem útfærð er á vandaðan hátt.

„Við erum umhverfissamtök og í því felst takmarkalaus virðing fyrir íslenskri náttúru í öllu sínu veldi. Við notum fugla og fiska, bæði uppstoppaða og myndir til að tengja við okkar starfsemi og umhverfi,“ segir Gísli sem er afar stoltur af þessari tengingu og af því að tekist hafi að tengja íslenska náttúru svona vel við vistarverur veiðimannsins á fallegan hátt.

Litatónar og húsgögn herbergjanna skapa hlýju og ró. MYND/GOLLI
Vínkælarnir eru í sérrými og þaðan sést í arininn. MYND/GOLLI