Það hafa verið góðviðrisdagar og það hafa Anna og Hannes nýtt sér í garðinum. Þau hafa meðal annars unnið að viðhaldi og hreinsun. „Ég er mikil áhugamanneskja um gróður og garða,“ segir Anna sem notar hverja frístund til að undirbúa garðinn fyrir sumarið. „Við erum með góðan garð sem er svolítið skipt niður, það eru pallar á þremur stöðum og í einum hlutanum erum við með heitan pott. Við búum skammt frá Reykjalundi í mjög fallegu umhverfi en við fluttum hingað fyrir tveimur og hálfu ári,“ segir Anna.

Í garðinum er lítið hús fyrir barnabörnum þar sem þau geta leikið sér. Þarna sést líka vel hvernig þau Anna og Hannes byggðu yfir hluta af pallinum til að verjast íslenskri veðráttu. FRETTABLAÐIÐ/ERNIR

„Við nýttum það í garðinum sem fyrir var og svo höfum við verið að bæta við, setja niður tré og alls kyns rósir. Mér finnst mjög skemmtilegt að dunda í garðinum en þar sem við bjuggum áður voru einungis pallar og blóm í pottum. Okkur langaði mikið að eignast garð. Sumarblómin eru svo falleg en við viljum líka hafa tré í kringum okkur. Við erum eiginlega með alls konar tré í garðinum,“ segir hún. „Ég prófaði í fyrsta skiptið núna að setja niður lauka. Þeir voru fínir á meðan þeir voru innanhúss en drápust allir þar sem ég setti þá of snemma út. Það er samt stefna mín að rækta frá grunni,“ segir Anna.

Pallurinn er framlenging af stofunni og er mikið notaður eftir að byggt var yfir hluta hans. FRETTABLAÐIÐ/ERNIR

Þau hjónin hafa verið að stækka pallinn hjá sér og byggðu yfir hann að hluta. „Í framtíðinni ætlum við hugsanlega að loka honum alveg. Við fengum nóg af rigningarveðrinu síðasta sumar og mig langar til að hafa fínt á pallinum án þess að vera alltaf að spá í veðurfarið. Núna þarf ég engar áhyggjur að hafa af veðrinu og nota pallinn sem aðra stofu. Við sitjum oftast úti þannig að húsnæðið okkar stækkaði við breytinguna. Ég vil geta notið þess að vera utandyra þótt það sé kannski ekki glampandi sól. Við sitjum stundum úti í úlpu og með teppi. Við erum með arin á pallinum og það má segja að við séum alltaf úti. Svo grillum við og höfum það kósí.“

Það eru nokkur góð horn í garðinum þar sem er hægt að hafa það notalegt.

Anna er alltaf að gera fínt á pallinum. Hún hefur tekið upp gamla hluti sem voru komnir ofan í kassa og gefið þeim nýtt líf. „Ég hef verið að spreyja alls konar hluti sem ég get núna notað úti á palli til að gera vistlegt. Mér finnst æðislega skemmtilegt að dunda þannig,“ segir hún. „Yfirbyggði pallurinn er okkar önnur stofa núna en svo byggðum við annan pall til að nýta til sólbaða í góðu veðri. Þar er ég með sólbekki og frábært að vera þar í sólinni þegar maður á frí. Það er mikil veðursæld hér og gott að vera nálægt náttúrunni,“ segir Anna og viðurkennir að garðurinn kalli á talsverða vinnu en hún sé skemmtileg.

Anna hefur sótt gamla hluti úr kössum, spreyjað og gefið nýtt líf.

„Ég er að mestu búin að fara yfir garðinn núna en það er alltaf eitthvað eftir. Við erum búin að bera á pallinn að hluta en eigum eftir smávegis. Það er alltaf hægt að bæta á sig vinnu í garðinum en það er bara gaman. Við erum líka með garðhús með eldhúsi í garðinum þar sem barnabörnin geta leikið sér en þau eru orðin sex,“ segir Anna en á heimilinu eru þau hjónin ásamt 21 árs gamalli dóttur þeirra og heimilishundinum. Anna starfar sem tanntæknir hjá tannlæknadeild Háskóla Íslands en Hannes er umsjónarmaður fasteigna hjá Regin fasteignafélagi.

Anna og Hannes eiga sumarbústað en segjast nota hann miklu minna eftir að þau flutti í Mosfellsbæ. „Maður þarf hann ekki lengur,“ segir hún. „Ég veit ekki hvað við gerum við hann. Bústaðurinn er svo miklu minna notaður. Hér búum við í paradís og viljum bara vera heima þegar við erum í fríi. Svo er stutt í fallega náttúruna hér allt í kring.“

Hér lætur Anna fara vel um sig á pallinum. Hún er með græna fingur og finnst mjög skemmtilegt að dunda sér í garðinum. FRETTABLAÐIÐ/ERNIR