Myndin sem heitir Hvunndagshetjur fjallar um sögu fjögurra kvenna sem eiga það allar sameiginlegt að vera innflytjendur á Íslandi og hafa búið á landinu í um það bil 20 ár.

„Þetta eru konur sem eru fæddar í Bosníu, Jamaíku, Póllandi og Tyrklandi. Þær starfa við fjölbreytt störf á leikskóla, við skartgripagerð, á bráðamóttökunni og við leiðsögn. Þær eru með mjög ólíkan bakgrunn og hafa ólíkar sögur að segja,“ útskýrir Magnea.

„Hugmyndin kom til mín þegar ég var nýflutt til Íslands og leið svolítið eins og útlendingi á Íslandi. Mig langaði að kafa aðeins ofan í konseptið: Hvenær er maður útlendingur? Hvenær hættir maður að vera útlendingur? Hættir maður einhvern tímann að vera útlendingur? Þetta er svo eðlilegt og nauðsynlegt umfjöllunarefni þar sem innflytjendur eru orðnir 55 þúsund talsins á Íslandi. Mér finnst skrýtið að það hafi ekki verið meira fjallað um sögu þeirra.“

Við tökur á myndinni í versluninni Afro Zone þar sem Maria Victoria sem kemur frá Jamaíku er að versla.

Magnea fékk hugmyndina fyrir fjórum árum og hefur verið að þróa hana síðan. Hún byrjaði á að bjóða öllum erlendum vinkonum sínum og kunningjakonum heim í kaffi saman og fékk þær til að ræða þetta og velta fyrir sér upplifun sinni á Íslandi. Það eru því margar konur sem komu að þessu verkefni þó að bara fjórar hafi orðið fyrir valinu til að vera í myndinni.

Sagan fjallar um skilning á manneskjunni

Þar sem efni myndarinnar er konur langaði Magneu að fá kvenframleiðanda, en konur eru um 90 prósent þeirra sem vinna að myndinni. Magnea auglýsti því eftir framleiðanda hjá Wift á Íslandi, samtökum kvenna í sjónvarpi og kvikmyndum. Þannig fékk hún Maríu Leu Ævarsdóttur til liðs við sig og boltinn byrjaði að rúlla.

„Lea kveikti alveg á þessari hugmynd og tengdi vel við verkefnið. Við hittumst á kaffihúsi og smullum saman. Þannig hófst samstarf okkar. Ég fékk styrk frá kvikmyndasjóði en framleiðslufyrirtækið er Kvikmyndafélag Íslands, eða Kisi sem framleiddi meðal annars Lof mér að falla.“

„Núna erum við að vinna að því að klippa myndina og hún verður vonandi tilbúin á næsta ári. Vinnan við gerð hennar hefur tekið um það bil hálft ár og ég hef fengið fullt af góðu fólki til að vinna að henni með mér,“ segir Magnea.

Konurnar hafa allar búið á Íslandi í kringum 20 ár.

„Anní Ólafs tekur myndina upp og hún og Eva Lind Höskuldsdóttir klippa hana. Ester Bíbí Ásgeirsdóttir og Nicolas Leibing sjá um hljóðið, Ninna Pálma er með aukatökur í myndinni. Svo erum við með tónlistarfólk sem semur tónlistina, fólk í litaleiðréttingu, textagerð, eftirvinnslu og hönnun á plakati. Miðað við hvað þetta er lítið verkefni þá eru ótrúlega margir sem fá vinnu út á það.“

Magnea segir of snemmt að segja til um hvenær myndin verður frumsýnd en hún vonast til að hún ferðist sem víðast.

„Sagan á erindi við okkur öll. Hún fjallar um skilning á manneskjunni og að við eigum okkur öll ólíkar sögur. Konurnar í myndinni eru virkilega klárar og sterkar konur. Þetta er svolítill sósíal realismi, bara ekki leikinn.“