Um þessar mundir fer fram alþjóðleg leiklistarhátíð, Kielce International Theatre Festival, í borginni Kielce í suðaustur Póllandi. Þrátt fyrir að Kielce sé aðeins 18. stærsta borg Póllands er borgin á meðal framsæknustu borga landsins á listrænum vettvangi.
Hátíðin er haldin í samstarfi við Stefan Zeromski leikhúsið sem hóf nýlega nokkurra ára listrænt samstarf við Þjóðleikhúsið. Hún stendur yfir í þrjár vikur og var blaðamaður Fréttablaðsins viðstaddur fyrstu dagana.
„Við köllum þetta fjórðu útgáfu hátíðarinnar, ég er ekki góður í reikningi, en í raun er þetta sjötta árið,“ segir Marcin Zawada, listrænn stjórnandi hátíðarinnar. „Vegna Covid þurftum við að aflýsa hátíðinni með aðeins viku fyrirvara og fyrsta árið héldum við eins konar útgáfu núll í miklu smærri mynd.“
Fjölmörg leikhús víða um Pólland taka þátt í hátíðinni í ár, þar á meðal Dramatyczny leikhúsið í Varsjá, Wybrzeże leikúsið í Gdańsk, Tadeusz Łomnicki Nowy leikhúsið í Poznań, Wilam Horzyca leikhúsið í Toruń og Szkéné leikhúsið í Búdapest.

Heima frá ólíkum sjónarhornum
Þema Kielce International Theatre Festival í ár er heima, séð frá ólíkum sjónarhornum en Marcin segir það vera algengt umfjöllunarefni bæði yngstu og elstu kynslóðar pólskra leikstjóra um þessar mundir.
„Heima sem hús og sem staður minninga, þetta er sameiginlegt umfjöllunarefni sýninganna,“ segir hann. Marcin nefnir sem dæmi sýningarnar Remnants frá Wybrzeże leikhúsinu í Gdańsk, sem byggir á skáldsögunum Stramer eftir Mikołaj Łoziński og The Emigrants eftir W.G. Sebald, og sýninguna Alte Hejm frá Tadeusz Łomnicki Nowy leikhúsinu í Poznań, en báðar þessar sýningar fjalla um arfleifð og sögu Gyðinga í Póllandi.
Þemað birtist einnig í ljósmyndasýningunni Go Home Polish eftir pólska ljósmyndarann Michal Iwanowski, sem fjallað var um í Fréttablaðinu fyrr í þessari viku. „Sýningin er einn af gimsteinum hátíðarinnar,“ segir Marcin.

Sameiginlegur grundvöllur
Að sögn Marcin er þó ekki auðvelt að finna eitt þema sem sameinar svo víðtæka hátíð.
„Ég myndi segja að það þurfi að finna einhvern sameiginlegan grundvöll fyrir sýningarnar en það er mjög erfitt að byrja á því að velja þema og leita síðan uppi sýningar sem passa inn í það. Til dæmis gæti maður ákveðið að þemað væri Guð og þú gætir kannski fundið þrjár góðar sýningar sem passa algjörlega inn í það þema en svo veistu ekki hvað verður frumsýnt í hinum leikhúsunum.“
Marcin nefnir einnig sérstaklega sýninguna Odyssey. A story for Hollywood frá Nowy leikhúsinu í Varsjá eftir leikstjórann Krzysztof Warlikowski. „Hann er stjarna og einn af þremur stærstu leikstjórunum í Póllandi í dag,“ segir Marcin.
Sýningin, sem blandar Ódysseifskviðu Hómers saman við tvær skáldsögur pólska rithöfundarins Hanna Krall, hefur vakið athygli víða um Evrópu og meðal annars verið sýnd í Frakklandi, Þýskalandi og Grikklandi.

Vilja verða menningarborg
Eins og áður sagði er Kielce einkar framsýn borg þrátt fyrir að íbúar hennar séu aðeins um 192.000. Borgin er þegar byrjuð að undirbúa umsókn sína um að verða menningarborg Evrópu 2029 en þar mun hún keppa um titilinn við pólskar borgir á borð við Białystok, Lublin, Katowice og Sosnowiec, Słubice, Szczecin og Frankfurt (Oder) í Þýskalandi. Alþjóðlega leiklistarhátíðin í Kielce er mikilvægur liður í þeirri vegferð en Marcin er partur af teyminu sem undirbýr umsóknina.
„Ég held að það skipti ekki mestu máli að vinna, enda er samkeppnin mikil. Við erum að keppa við stórar og ríkar borgir. Mestu máli skiptir að fólk átti sig á því að við getum unnið að einhverju í sameiningu. Kannski sérstaklega fyrir fólk sem vinnur hjá ólíkum menningarstofnunum. Við höfum á vissan hátt verið eins og aðskildar eyjar hérna,“ segir hann.
Ég virkilega elska þennan stað af því hér á ég bæði kollega og vini.
Leikhús fyrir alla
Marcin er enginn nýgræðingur í því að skipuleggja leiklistarhátíðir en hann stýrði áður leiklistarhátíðunum Hajdpark í Varsjá og Demoludy hátíðinni í Olsztyn. Hann segir Kielce vera frábæran stað til að vinna á og segir það að stóru leyti vera að þakka starfi Michał Kotański, leikhússtjóra Stefan Żeromski leikhússins sem hefur gjörbreytt listrænni sýn leikhússins á undanförnum árum.
„Ég virkilega elska þennan stað af því hér á ég bæði kollega og vini. Það kom mér líka skemmtilega á óvart að nýja leikhúsið, nútímaleikhúsið, er einnig vinsælt meðal áhorfenda hér þrátt fyrir að þeir hafi verið vanir gamanleikjum og försum í gamaldags stíl, jafnvel 19. aldar stíl. Strax frá fyrstu frumsýningu kom Michał inn með stór, dýr nöfn og mjög skapandi fólk.“
Þá segir Marcin það einnig skipta miklu máli að vera með fjölbreytta dagskrá bæði í leikhúsinu og á hátíðinni sem henti öllum áhorfendum.
„Við erum með mjög listrænar sýningar eftir vinsæla leikstjóra en við þurfum líka að sýna farsa fyrir fólkið sem kemur aldrei að sjá listrænu sýningarnar, þau eru áhorfendur okkar líka.“
Að lokum segist Marcin vera komin með hugmynd að þema fyrir næstu útgáfu hátíðarinnar sem hann gerir ráð fyrir að verði sambandið á milli barna og foreldra.