Eðli málsins samkvæmt leynist ýmislegt annað í nefkoki fólks en þau sýni sem slægst er eftir með pinnunum alræmdu. Þannig er sá kvittur kominn á kreik að nokkuð sé um að sýnatökufólk verði vart að hvítar duftagnir falli úr nösum fólks þegar pinnarnir eru dregnir út.

Marta María Arnarsdóttir, verkefnastjóri hraðprófa hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, kannast hins vegar ekki við að leifum hvítra fíkniefna snjói í slíku mæli að eftir hafi verið tekið.

„Þetta er mjög skemmtileg spurning en ég þarf eiginlega bara því miður að segja nei,“ sagði Marta María hlæjandi þegar Fréttablaðið forvitnaðist um málið. „Ég myndi segja já ef við værum vör við þetta. Það væri nú samt svolítið skemmtilegt.“

Þótt hvítt duft safnist ekki í hauga á sýnatökustöðum fylgja sýnunum þó að vonum stundum ýmis aukaefni sem hafa lítið með mótefnamælingar að gera. „Það er nú frekar bara hor og tóbaksslikja. Það er nú mesti viðbjóðurinn. Ósnýttar tóbaksnasir. Þær koma af og til.“