Helga var spurð hverjar væru helstu nýjungar vortískunnar. „Ég myndi kannski ekki segja að það væri mikið um nýjungar, því við höfum séð þessi trend öll áður, en litadýrðin og fersku stílarnir eru samt svo upplífgandi eftir grámyglulegan vetur. Ég satt best að segja fæ mikla gleði í hjartað við að skoða skærar og skemmtilegar litasamsetningar. Platform-hælaskórnir koma aftur með miklum þunga, mínípilsin verða allsráðandi og aldamótatískan tröllríður öllu,“ útskýrir hún, en auk þess að skrifa um tísku fyrir HÉRER.IS gefur Helga ýmis tísku- og förðunarráð og er virk á Facebook og Instagram.

Helga segir að tískan virðist alltaf leita til fortíðar. „Í ár er aldamótatískan svokallaða hvað mest áberandi. Lágar buxur, fiðrildaspennur, slæðutoppar og magabolir. Allt í anda Paris Hilton og Britney Spears. Þetta er bara eðlileg þróun og mjög týpísk milli árstíða. Það er engin 360 gráðu beygja finnst mér. Það er einhvern veginn allt inni. Allt hvítt, mjög litríkt, bóhem, straumlínulaga, maxípils og mínípils, karlmannlegir blazerar í yfirstærð og stelpulegir djammkjólar. Og allt þar á milli. Eitthvað fyrir alla, sem betur fer.“

Emili Sindlev í fallegri pastellitri dragt og appelsínugulri skyrtu við, en hún er gott merki um sumarið 2022.

Magabolir komnir aftur

Verða litir meira sjáanlegir?

„Heldur betur og sem betur fer. Gulur, rauður, grænn og blár. Skærir litir og pastel, en það er líka skemmtilegt að segja frá því að það sem Gucci sjálfur sagði að væri algert „no no“ í denn, það er pasteltónar og brúnt lita-kombó, er að poppa upp víða, eins og hjá Tom Ford og Valentino,“ svarar hún.

Þegar Helga er spurð hvort það sé rétt að magabolir séu að koma aftur, játar hún því. „Það er heldur betur svoleiðis, þökk sé áhrifum frá tískustraumunum í kringum aldamótin. Ég sé einhvern veginn samt mjög takmarkaðan hóp fyrir mér klæðast magabolum, helst konur á aldrinum 17-25, myndi ég giska á. En það eru engar reglur þegar kemur að tísku og engin aldurstakmörk fyrir straumum eða stefnum. „You do you“ á alltaf við.“

Annabel Rosendahl, Tine Andrea og Darja Barannik í litríkum jökkum. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Helga segist alltaf hafa haft áhuga á tísku. „Já, alveg frá því ég man eftir mér. Ég fylgdist agndofa með mömmu minni hafa sig til fyrir vinnuna sína í Alþingi í denn, með tilheyrandi litadýrð á augum, Girl Boss-axlapúðum, „indjánapúðri“ og hárlökkuðu, permanentuðu hári, sem var lýsandi fyrir tísku níunda áratugarins. Í kringum fermingaraldur rambaði ég inn í bókabúð á Lækjargötu og uppgötvaði franska Vogue. Eftir það var ekki aftur snúið. Ég hef alla tíð verið dolfallin yfir ljósmyndum og öllum tilfinningunum sem hægt er að tjá í gegnum þær. Og ekki síst glamúrnum sem ég hef getað gleymt mér í. Það hefur ekki síður verið flótti frá raunveruleikanum eða hversdagsleikanum í gegnum tíðina. Síðasta áratuginn hef ég verið svo heppin að geta unnið sem tískublaðamaður, stílisti, förðunarfræðingur og ritstjóri og því fengið að vera með puttann í öllu því sem mér þykir skemmtilegast. Þar með rættist æskudraumur og ég fæ að lifa og hrærast í búbblunni minni og fá borgað fyrir það,“ segir hún.

Ofurfyrirsætan Gigi Hadid sýnir topp sem Versace var með á tískusýningu fyrir sumartískuna 2022.

Innblástur frá Kryddpíunni

Þegar hún er spurð um innblástur, svarar Helga. „Ég fletti enn tímaritum (ég veit, frekar gamaldags!) eins og Porter, Vogue og Elle, en Porter-vefsíðan og Who What Wear eru líka inni í daglega rúntinum mínum. Eins hef ég aðgang að myndabanka í vinnunni minni þar sem ég get skoðað sýningar helstu hönnuða heims, spáð og spekúlerað í tísku-trendin og skoðað götutískuna. Það hefur gefið mér mikið og sett HÉRER.IS upp á næsta „level“ þegar kemur að tískuumfjöllun.“

Litlu magatopparnir eru alla vega. Þessi var sýndur á tískuviku í Mílanó fyrir sumartískuna 2022.

Helga segir að Victoria Beckham sé í miklu uppáhaldi. „Hún hefur verið í uppáhaldi frá því hún var Kryddpía,“ segir hún. „Eins má ég til með að nefna Yves Saint Laurent, sem var auðvitað mikill frumkvöðull. Ég er enn sökker fyrir Saint Laurent-tískuhúsinu, þó þau mættu gjarnan nota fyrirsætur í fleiri stærðum og á breiðara aldursbili í sýningum og auglýsingaherferðum sínum. Heróín-útlitið hefur aldrei höfðað til mín. Eins hef ég alltaf heillast af Tom Ford. Hönnun Toms Ford fyrir Gucci seint á tíunda áratugnum er kynþokkafull og spennandi með meiru,“ segir Helga og bedir á að hún hafi alltaf verið heilluð af kápum og blazer-jökkum. „Ég á svolítið erfitt með mig þegar verslanir fyllast af ferskri hausttísku. Zara í Smáralind er veikleikinn minn, ég viðurkenni það fúslega.“

Finnst þér Íslendingar hafa verið duglegir að leita að fallegum fötum hér heima í Covid – eða voru það bara jogginggallar?

„Vegna þess hve lengi við vorum í heimagallanum held ég að þörfin fyrir glamúr hafi verið extra mikil núna yfir jólahátíðina. Það var allavega þannig í mínu tilfelli, ég bókstaflega féll fyrir öllu glimmeri. Eins þegar það opnaði fyrir allt þá held ég að fólk hafi haft einstaklega gaman af því að klæða sig upp á.“