Þegar Ingunn Embla er beðin um að lýsa sjálfri sér í stuttu máli svarar hún: „24 ára sérvitur fagurkeri, kattaraðdáandi og mikil áhugamanneskja um liti.“

Ingunn flutti í Laugardalinn í fyrra. „Ég bjó áður í risíbúð í Bryggjuhverfinu við Grafarvog. Við móðir mín fluttum svo hingað saman í apríl 2019, ásamt tveimur yngri systkinum og kettinum Lóló.“

Elskar risíbúðir

Ljóst er að búið er að nostra við hvern krók og kima heimilisins sem einkennist af glaðlegu litavali, fallegum húsgögnum, lifandi plöntum og áhugaverðum skraut- og listmunum. Ríkuleg birtan sem baðar rýmið er töfrum líkust og í miklu uppáhaldi hjá Ingunni Emblu.

„Það sem heillar mig við þessa íbúð er hvað það er góður andi í henni. Ég elska risíbúðir þar sem ég ólst upp í einni mjög svipaðri þessari, einmitt í hinum enda götunnar. Ljósflæðið í íbúðinni er einnig mjög gott þar sem það eru gluggar allan hringinn.“

Birtan flæðir inn um gluggana. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Mæðgurnar þurftu ekki að standa í miklum framkvæmdum. „Það vildi svo heppilega til að fyrrum eigendur voru nýbúnir að gera íbúðina upp afar smekklega. Við mæðgurnar ákváðum hins
vegar að mála alla veggina í litum þegar við fluttum inn.“

Þó er sitthvað á döfinni. „Fyrirhugaðar framkvæmdir eru mjög smávægilegar, það er að segja að gera skemmtilega uppröðun á myndavegg í stofunni og svefnherberginu mínu.“

Ævintýralega fallegt barnaherbergi. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Gleði og litadýrð

Litapalletta veggja heimilisins er vandlega útfærð, litirnir eru mildir, svalandi og hlýlegir á sama tíma. Það er nánast eins og heimilið sé klippt út úr tímariti, það er hugað að hverju smáatriði og munir valdir inn út frá fagurfræði og litum.

„Ég laðast mikið að skemmtilega sérkennilegum munum í björtum og djörfum litum. Mér finnst mikilvægt að hafa litagleði í kringum mig og persónulega muni. Stundum fer þetta út í ofhlaðnar öfgar, en er það ekki bara hressandi?“

Engin orð.

Hvernig mundirðu lýsa andrúmsloftinu/stílnum á heimilinu?

„Litagleði á sterum. Þegar tvær litaglaðar mæðgur koma saman og láta ekkert stoppa sig. Mjög kvenleg orka á þessu heimili.“

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn í íbúðinni og hvers vegna?

„Guli velúrsófinn er klárlega uppáhaldsstaðurinn í íbúðinni. Gerist ekki huggulegra en að hlamma sér í sófann eftir langan dag og horfa á eitthvað menningarlegt eins og Bachelor.“

Eldhúsið iðar af lífi, litum og ljósi.

Blaðamaður spyr Ingunni hvort hún eldi mikið og hvað þá helst. „Ég myndi ekki segja að ég eldi mikið en ef það kemur fyrir þá sérhæfi ég mig í einföldum pastaréttum að ítölskum hætti. Tómatpassata, ólífuolía, basilíka og fjall af parmesan. Gerist ekki betra.“

Lampinn sem Ingunn Embla handmálaði ásamt vinkonu sinni Lilju Cardew.

En uppáhaldshluturinn?

„Uppáhaldshlutirnir mínir eru tveir. Stóri ítalski postulínsblettatígurinn minn hann Barði. Ég slóst um hann í Góða hirðinum, með sigri. Einnig er handmálaði lampinn í svefnherginu mínu í miklu uppáhaldi þar sem hann er hannaður af mér og hæfileikaríku vinkonu minni Lilju Cardew.“

Ótrúlega fallegt.

Ertu að safna einhverju?

„Ég er alltaf veik fyrir fallegum blómavösum. Einnig er dúkkuhausasafn okkar mæðgna orðið ansi stórt.“

Postulínshlébarðinn Barði nýtur sín í stofunni.

Hvaða hlutur fyrir heimilið er efstur á óskalistanum?

„Efst á heimilisóskalistanum er að fjárfesta í bast-rúllugardínum fyrir alla glugga íbúðarinnar.“

Hvar sækirðu innblástur?

„Ég sæki innblástur helst af samfélagsmiðlum, og þá sérstaklega Instagram. Ég lít mikið upp til danskrar hönnunar og áhrifavalda. Hönnuðurinn Stine Goya er í miklu uppáhaldi þegar kemur að litasamsetningu og fatavali.“

Guli velúrsófinn í stofunni er í miklu uppáhaldi.