Kjarval
Stefán Hallur Stefáns­son
Borgar­leik­húsið, Litla sviðið
Leik­stjóri: Stefán Hallur Stefáns­son
Leikarar: Haraldur Ari Stefáns­son og Þuríður Blær Jóhanns­dóttir
Leik­mynd og búningar: Guð­ný Hrund Sigurðar­dóttir
Tón­list: Úlfur Eld­járn
Lýsing og mynd­bönd: Pálmi Jóns­son
Hljóð: Þor­björn Stein­gríms­son
Leik­gervi: Elín S. Gísla­dóttir
Sviðs­hreyfingar: Kata Ingva

Jóhannes Sveins­son Kjarval gaf Ís­lendingum ekki einungis nýja sýn á ís­lenskt lands­lag heldur einnig á lifið. Fegurðina má finna alls staðar og oft á ó­væntum stöðum, líka innra með okkur. Mynd­mál hans er örugg­lega orðið greypt í gena­mengi þjóðarinnar, því er svo sannar­lega við hæfi að setja upp leik­sýningu um líf þessa merka manns, en Kjarval var frum­sýnt á Litla sviði Borgar­leik­hússins laugar­daginn 25. septem­ber.

Stefán Hallur Stefáns­son leik­stýrir og semur hand­ritið en leik­ritið er að hluta til byggt á bók Margrétar Tryggva­dóttur, Kjarval: Málarinn sem fór sínar eigin leiðir. Stiklað er á mjög stóru á ævi­skeiði Kjarvals, hér er það listin sem er tjáningar­miðillinn, alveg eins og í lífi lista­mannsins. Á­horf­endur eru leiddir um heim skynjunar frekar en stað­reynda, heim sem er smíðaður með fjöl­breyttum efni­viði en horn­steinarnir eru mynd­list og lífs­við­horf Kjarvals. Þetta gerir Stefán Hallur virki­lega vel í einni á­huga­verðustu barna­sýningu síðustu leik­ára.

Listin er þriðja per­sónan

Sýningin hefst með lita­sprengju áður en að leikararnir svo mikið sem stíga á svið. Guð­ný Hrund Sigurðar­dóttir er svo sannar­lega einn eftir­tektar­verðasti leik­mynda­hönnuður landsins. Á­horf­endur hrein­lega hrynja inn í hugar­heim og list Kjarvals þegar gengið er inn í Litla salinn. Sætin eru um­kringd eftir­prentunum af mál­verkum meistarans og strigarnir stöðugt tengdir inn í fram­vindu sýningarinnar. Listin, einnig endur­spegluð í leik­munum og búningum, er nefni­lega þriðja per­sóna sýningarinnar. Lýsing og mynd­bands­vinna Pálma Jóns­sonar spilar einnig veiga­mikið hlut­verk, þar sem á­herslan er lögð á að lyfta listinni upp og endur­skapa, enda spilar ljósið veiga­mikið hlut­verk í verkum Kjarvals.

Haraldur Ari Stefáns­son og Þuríður Blær Jóhannes­dóttir hafa áður haldið uppi leik­sýningu sem leikar­at­ví­eyki, en það var leik­sýningin Tví­skinnungur eftir Jón Magnús Arnars­son, á sama sviði fyrir þremur árum. Bæði hafa þau mikla út­geislun og sterka sviðs­verund sem skilar sér í eftir­minni­legri frammi­stöðu sem er keyrð á­fram af leik­gleði. Þau ná fal­legri tengingu við á­horf­endur, texta­vinnan er fram­úr­skarandi og leikurinn léttur. Frá­bær þrenna í sýningu ætluð yngstu kyn­slóðunum, en nálgun þeirra opnar á tengingu við alla aldurs­hópa.

Tón­list Úlfs Eld­járn, hljóð­vinnsla Þor­björns Stein­gríms­sonar og sviðs­hreyfingar Kötu Ingva eru síðan eins og síðustu pensil­drættirnir í stór­brotnu mál­verki: Þau dýpka verkið án þess að vera yfir­þyrmandi, líkt og þau hefðu alltaf verið á striganum.

Ævi­sögu­legar sýningar hafa verið á­berandi síðast­liðin misseri með mis­jöfnum árangri, en Kjarval, með Haraldi Ara og Þuríði Blævi í farar­broddi, sýnir hvernig hægt er að nálgast þessa tegund leik­sýninga með eftir­minni­legum hætti. Kjarval á eftir að þjappast ör­lítið saman og styrkjast en svo sannar­lega er hægt að mæla með sýningunni fyrir list­unn­endur á öllum aldri.

Niður­staða: Kjarval er yfir­full af töfrum og lita­dýrð, eins og ís­lensk náttúra.