Aðalhönnuður og listrænn ráðgjafi Louis Vuitton, Virgil Abloh, lést í nóvember 2021 eftir baráttu við sjaldgæft krabbamein. Virgil hefur á undanförnum árum komið með hugmyndir og hönnun sem vakið hafa mikla athygli. Hann á stóran þátt í þeirri herratísku sem sýnd var núna í París, en um leið heiðraði fyrirtækið minningu hans með stórkostlegri sýningu. Reyndar bíða aðdáendur tískumerkisins spenntir eftir því hver tekur við stöðu Virgil en það verður kynnt í haust.

Grár frakki sem skreyttur er með lituðu lógói fyrirtækisins. Taska að sjálfsögðu í stíl.

Lúðrasveit setti sýninguna og hljómaði „Lifi Virgil“ undir tónlistinni. Litadýrð á búningum hljómsveitarinnar var sömuleiðis sótt í hönnun Virgil. Djörf lita- og formnotkun var einmitt einkennandi fyrir hönnun hans. Gulur litur var áberandi á þessari ljóðrænu sýningu.

Virgil horfði til mótorhjólatöffara þegar hann hannaði leðurjakka í flottum litum. Glæsileg flík sem örugglega verður tekið eftir á götu.

Fatnaðurinn sem sýndur var þótti frumlegur. Fjólublá jakkaföt með breiðum öxlum en mjóum ermum, jakkar með blómahnöppum og áberandi töskur með LV lógóinu. Dálítið hippalegt en samt ekki. Leðurjakkar í sterkum litum við stuttbuxur og græn stígvél. Allt frumlegt og skemmtilega sjónrænt og í anda Virgil sem hannaði fyrstu línu sína fyrir LV árið 2019 og hefur átt stóran þátt í velgengni fyrirtækisins undanfarin ár.

Virgil þykir hafa á ferli sínum farið óhefðbundnar leiðir í tískuhönnun og fært götufatnað á hæsta stig lúxusmarkaðarins. Þá var hann einn af fáum svörtum hönnuðum í stjórnun á stærstu tískumerkjum heims. Honum tókst að ná til stærri hóps en Louis Vuitton hafði gert áður. Hann var stundum kallaður Karl Lagerfeld sinnar kynslóðar en hann var fæddur árið 1980, Virgil þótti vera skapandi snillingur með nánast ofurmannlega orku.

Þessi leðurjakki er glæsilegur og í fallegum litum. Taskan er skemmtilega hönnuð.

Foreldrar Virgil eru frá Ghana en hann ólst upp í úthverfi Chicago. Hann lauk BA gráðu í byggingaverkfræði og hélt síðan í nám í arkitektúr. Hann vakti fyrst athygli þegar hann starfaði með Kanye West en þeir félagar stunduðu nám hjá Fendi árið 2009. Árið 2017 afhjúpaði hann tímamótasamstarf við Nike áður en hann hóf störf hjá Louis Vuitton árið 2018. Virgil var aðeins 41 árs þegar hann lést.

Breiðar axlir voru einkennandi í hönnun LV fyrir sumarið 2023.
Einhverjir myndu segja að þetta væri gæjalegur jakki og það má örugglega kalla hann það.
Síður frakki með breiðum öxlum. Sumartíska fyrir herra frá Louis Vuitton 2023.
Skemmtilega hippaleg taska sem hentar vel fyrir alla.