Það má með sanni segja að listrænir hæfileikar Laufeyjar fari vel saman við starf hennar í háloftunum og á ferðalögum sínum hafi hún fengið innblástur fyrir list sína og daglegt líf. Laufey á líka fjölskyldu sem hún elskar að vera með og bjóða heim.

„Ég á tvær yndislegar dætur sem báðar eru fluttar að heiman og stjúpson sem býr í Svíþjóð,“ segir Laufey sem nýtur sín líka í móðurhlutverkinu.

Áhugamál hennar eru fjölbreytt og teygja sig út í náttúruna.

„Fyrir utan myndlistina þá elska ég að fara í golf og njóta náttúrunnar, ég fer á skíði og hef mikinn áhuga á ferðalögum bæði innanlands sem utan. Upp á síðkastið hef ég tekið upp á því að lesa indversk fræði, heimspeki/dulspeki. Ég spila á píanó þegar tækifæri gefst. Mér leiðist aldrei og finnst frekar vanta fleiri tíma í sólarhringinn ef eitthvað er því það er svo margt sem mig langar til að gera. Mér finnst gaman að elda góðan mat og baka mikið. Það er oftast til kaka á heimilinu. Ég er í miklu sambandi við vini mína sem ég hitti eins oft og tækifæri gefst og eigum gott spjall.“

„Málverkið fyrir ofan píanóið er eftir móður mína, Matthildi Arnalds, sem mér finnst einstaklega fallegt verk. Mér finnst bein tenging vera til hennar æskuheimilis í verkinu og þess vegna valdi ég þessa mynd,“ segir Laufey.

Glamúr og glæsileiki í fyrirrúmi

Í þættinum Matur og heimili á Hringbraut í sumar var Laufey heimsótt og fengum við innsýn í heimilisstíl hennar.

„Ég myndi segja að ég væri frekar fyrir mínímalískan eða stílhreinan stíl þar sem ég er ekki með mikið af hlutum. Kannski ögn klassískur stíll. Ég er sömuleiðis fyrir glamúr og glæsileika og á örugglega eftir að fá mér kristalsljósakrónur. Er fyrir fínar stofur og grand fallega hluti.“

Íbúðin hjá Laufeyju er frekar opin og flæði gott á milli stofu og borðstofu, eldhúss og sjónvarpskróks sem virkar sem ein heild.

„Við nýtum allt þetta rými vel þegar við komum saman, breiðum úr okkur, látum fara vel um okkur og spjöllum. Ég nýt þess að fá alla í mat og það má því segja að opna rýmið, stofurnar, sé hjarta heimilisins.“

Borðstofusettið er í miklu uppáhaldi hjá Laufeyju. Ljósið fyrir ofan fékk Laufey að gjöf frá vinum sem komu með þá hugmynd að það væri kannski gaman að spreyja það svart. Laufey segir að það verði verkefni sumarsins.

Flygillinn í uppáhaldi

Hlutirnir hennar Laufeyjar hafa margir tilfinningalegt gildi fyrir hana og sumir þeirra eiga sér sögu.

„Margir hlutirnir mínir hafa tilfinningalegt gildi fyrir mig. Ég hef komið heim með ýmsa muni frá ólíkum menningarheimum í starfi mínu sem flugfreyja. Mér þykir einnig mjög vænt um þá fáu muni sem ég á eftir forfeður mína. Ég met mikils að eiga karöflu frá afa mínum, Einari Arnalds, og fallega klukku frá foreldrum hans, Matthildi Einarsdóttur Kvaran og Ara Arnalds. Kínverska skálin er úr búi foreldra minna og henni fylgja góðar minningar. Ég á yfirleitt hlutina lengi og geymi þá frekar í geymslunni heldur en að fleygja þeim. Ég er kannski smá safnari í mér.“

Uppáhaldshlutur Laufeyjar á heimilinu er flygillinn.

„Ég hafði ekki aðgang að píanói í mörg ár og gladdist því mikið að geta eignast þennan fallega flygil fyrir fjórum árum,“ segir hún dreymin á svip.

Laufey er ekki með marga hluti en velur þá gaumgæfilega og margir hafa sögu.

Dulúð og ævintýralegur blær

Laufey málar og nýtur sín með pensilinn við hönd. Verkin hennar gefa frá sér sterka strauma og orku og ljóst að Laufey er innblásin af sköpun og ástríðu þegar verkin eru unnin.

„Innblásturinn fæ ég víða hvort heldur sem er úr náttúrunni, norðurljósunum, eins og sést í grænu verkunum, eða úr hafinu. Ég er að vinna svo ólík verk. Ég er jafnframt að miðla umbreytingarorku sem hækkar tíðni í svörtu verkunum mínum. En þau eru mjög íslensk og minna óneitanlega á hraunið í íslenskri nátt
úru og svarta sanda við strendur Íslands. Einnig hef ég leitað á mið undirvitundarinnar sem kemur fram og upp á yfirborðið meðan ég mála og skapar einhvers konar dulúð sem kemur fram í ævintýralegum blæ margra verka minna.“

Laufey situr hér við flygilinn sem henni þykir einstaklega vænt um. Fallegt málverk má sjá í baksýn.

Laufey segist eiga sér fyrirmynd í listinni.

„Ég einfaldlega elska Kjarval. Ég er oft undir miklum áhrifum frá honum og er að mála landslagsseríu sem ég beinlínis tengi við hann. Ætli sú sýning verði ekki kölluð Samtal við Kjarval.“

Einnig heldur Laufey mikið upp á Ásgrím, Þórarin B. Þorláksson, Nínu Tryggvadóttur, Pétur Friðrik og fleiri.

„Þau eru öll landslagsmálarar en ég hef málað landslagsmyndir frá upphafi. Það voru mín fyrstu verk. Það kom mér reyndar verulega á óvart að ég færi þá leið á sínum tíma. Ég hef ávallt málað eina og eina slíka í gegnum tíðina en er að gefa í í þeim efnum. Í raun finnst mér skemmtilegast að mála landslagsmyndirnar, en hef lítið sem ekkert sýnt þær. En það kemur að því. Ég tengi því mjög við verk gömlu meistaranna og dáist að þeim.“

Laufey horfir til íslenskrar náttúru í verkum sínum.

Aðspurð segir Laufey að uppáhalds litapallettan hennar sé tvískipt.

„Litapallettan er í raun tvískipt, annars vegar mikið af bláum og grænum tónum, jarðlitum eða svört. Ég er oft með þær báðar í gangi í einu. Ég hef ávallt verið mjög blá en síðustu misseri hef ég notast við marga græna liti, allan skalann held ég bara.“

Laufey er með vinnustofu í Auðbrekku 14, Kópavogi í húsnæði sem SÍM - Samband íslenskra myndlistarmanna hefur til umráða og þar er hægt að heimsækja hana og skoða verk hennar.

Glæsilegt verk fyrir ofan sófann. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI