Hallgrímur Helgason, rithöfundur og myndlistarmaður, segir lesendum Fréttablaðsins frá listinni sem breytti lífi hans.

„Ég hitti Hamlet fyrst í Iðnó 1988. Stefán Baldursson stýrði Þresti Leó í aðalhlutverkinu. Ég var að nálgast þrítugt en samt var maður þarna eins og rolla sem gónir á heysátu. Síðan hef ég séð verkið sjö sinnum og lesið og stúderað, notaði það jafnvel sem skapalón að 101 Reykjavík. Samt kemst maður aldrei yfir verkið, við komumst í mesta lagi í kringum það, einmitt þess vegna er það sett upp aftur og aftur.

Hamlet er eitt talandi ljóð, línur hans líkt og gárur á yfirborði saltrar sálar. Með einræðum hans og vangaveltum togar Shake­speare okkur inn í persónuna þar sem við gleymum okkur og náum þess vegna aldrei taki á henni, vitum aldrei hver prinsinn er í raun. En maður sér þó stundum sjálfan sig í honum:

„Úr liði er öldin! Ó, mig hryllir við

þeim örlögum að kippa henni í lið.“

Besta Hamletsýningin sem ég hef séð var uppsetning Royal Shakespeare Company í Barbican 2004 með Sam West í aðalhlutverki. Nútímaleg og stílfærð en stælalaus og verkið fékk að skína.

Hlynur Björn í 101 Reykjavík tengist reyndar Hamlet á ýmsa vegu. Ég nýtti verkið sem undirlag í bókinni og Baltasar Kormákur var nýbúinn að leikstýra Hilmi Snæ í Hamlet þegar hann keypti kvikmyndaréttinn.“