Pétur Ben tónlistarmaður segir lesendum Fréttablaðsins frá listinni sem breytti lífi hans, laginu Ebony and Ivory með Paul McCartney og Stevie Wonder.
„Þegar maður er sjö ára þá veit maður ekkert hver maður er eða hvað maður vill gera. Ég eignaðist vasadiskó sem ég held mögulega að ég hafi fengið þegar ég þurfti að vera á spítala nokkrum árum áður. Það var ekki endilega mikið af tónlist keypt á heimilinu en mamma hlustaði á ABBA og Billy Joel.“
Pétur segir fjölskyldunni svo hafa borist hvalreki þegar þau fengu að eiga kassettur vinar foreldra hans.
„Ég fór í gegnum kassetturnar, fann þessa kassettu og varð svona ástfanginn af þessu lagi, Ebony and Ivory. Ég held að það hafi haft bara alveg djúpstæð áhrif á mig. Ég hafði ekki hugmynd um hvað hvorki ebony né ivory þýddi. Það hefur örugglega einhver útskýrt fyrir mér hvað þetta þýddi, annars vegar nóturnar á píanóinu og hins vegar væri þetta líka vísun í einhvers konar kynþáttaerjur. Tilraun til að slökkva einhverja elda og græða sár. Mér finnst þetta bara mjög fallegt lag enn þann dag í dag. Það er eflaust hægt að segja að þetta sé einhvers konar naíf hugsun en mér finnst það ekki, mér finnst það bara fallegt.
Ég er með einhverja minningu af því að ganga um hverfið um kvöld og hlusta á þetta lag í heyrnartólum og uppgötva þá í leiðinni þennan hljóðræna heim. Að vera í einhverri svona hljóðs-væru. Þetta var mikil opinberun á margan hátt.“