Margrét Bjarna­dóttir, dans­höfundur, segir les­endum Frétta­blaðsins frá listinni sem breytti lífi hennar.

„Tón­listar­mynd­bandið við lagið Pra­ise You með Fat­boy Slim var ein­hvers konar upp­ljómun fyrir mig. Árið var 1999 var ég 18 ára og hef senni­lega séð mynd­bandið fyrst á MTV. Ég held að það hafi talað sér­stak­lega til mín vegna þess að á þessum tíma var ég í ströngu ballett­námi þar sem mark­miðið er full­komnun – að hafa full­komið vald yfir eigin líkama og hreyfingum – og ég hafði búið í þeim heimi í mörg ár. Fagur­fræði þessa mynd­bands hafði hins­vegar lítið með full­komnun að gera.

Í mynd­bandinu sýnir á­huga­dans­flokkur dans­at­riði sitt við lag Fat­boy Slim fyrir utan kvik­mynda­hús ein­hvers staðar í Banda­ríkjunum. Dans­flokkurinn saman­stendur af full­orðnu fólki en sóló­dansarinn í hópnum, frekar ræfils­legur maður um þrí­tugt, heillaði mig sér­stak­lega. Mér leið eins og ég hefði fundið sálu­fé­laga minn. Ég fékk til­finninga­lega út­rás við það að horfa á hann dansa. Hann hafði litla sem enga tækni­lega færni en þeim mun meiri ást­ríðu og frum­kraft sem hreif mig. Hreyfingar hans voru á­kafar, hættu­legar og fyndnar en hann var alltaf tengdur, í mómentinu.

Þótt ég kunni að meta tækni­lega færni þá lærði ég þarna að hún er til lítils ef það skortir tengingu, tifinningu og anda sem er mjög dular­fullt dæmi en þessi maður og þetta mynd­band bjó yfir. Nokkrum árum síðar komst ég að því að þessi litli sálu­fé­lagi minn í dansi var sjálfur leik­stjóri mynd­bandsins, Spi­ke Jonze, sem átti m.a. eftir að leik­stýra Being John Mal­ko­vich og Her. Í mínum huga er þetta hið eina, sanna – full­komna – tón­listar­mynd­band.“