Gabríel Benjamin, fyrrverandi blaða- og verkalýðsmaður, segir lesendum Fréttablaðsins frá listinni sem breytti lífi hans.
„Ég hef verið um 21 árs þegar að ég sá kvikmyndina Children of Men eftir Alfonso Cuarón, en hún er byggð á samnefndri bók í heimi þar sem börn hafa ekki fæðst í um tvo áratugi. Auk ótrúlegrar kvikmyndatöku tæklar hún mörg málefni sem standa mér mjög nærri, eins og uppgang fasisma í skugga hræðslu og óvissu, og virði lífsins og lista við endalok mannkynsins. En það sem hafði mest áhrif var hvernig myndin fjallaði um flóttafólk.
Útsendarar sterkra og alráða stjórnvalda Bretlands elta uppi og handsama flóttafólk. Ítrekað dvelur linsa kvikmyndarinnar við flóttafólk sem er rýmt úr húsaskjóli sínu, fangelsað í búrum og misþyrmt af hervæddri lögreglu. Í fyrstu fannst mér þetta vera áhrifamikill vísindaskáldskapur, en í ítarefni myndarinnar var sýnt hvernig hervædd lögregla misþyrmdi umsækjendum um alþjóðlega vernd í Grikklandi og sendi jarðýtur til að jafnaði flóttamannabúðir við jörðu. Þessi kvikmynd opnaði augu mín og ég hef haldið þeim opnum síðan þá.
Skömmu síðar fór ég með Hauki heitnum Hilmarssyni á FIT Hostel þar sem íslenska ríkið lét flóttafólk grotna niður. Síðar meir sem blaðamaður var ég óhræddur við að nota dagskrárvald mitt til að vekja athygli á óréttlæti í þessum málaflokki, eins og í tilviki Tony Omos og Evelyn Glory Joseph í lekamálinu, og Chaplas Menka sem var stunginn með eggvopni af lögreglunni.
Í Children of Men er búið að normalísera ofbeldi gegn flóttafólki. Það er hversdagslegt. Að mótmæla því í raunheimi er að berjast fyrir betri heimi en Alfonso Cuarón varaði okkur við.
Frá útgáfu kvikmyndarinnar höfum við séð bandarísk yfirvöld aðskilja fjölskyldur og fangelsa börn í búrum, og séð hérlenda mannvonsku aukast er stjórnvöld handsama flóttafólk á leið í skóla nokkrum dögum áður en mál þeirra er tekið fyrir af dómstólum. Í Children of Men er búið að normalísera ofbeldi gegn flóttafólki. Það er hversdagslegt. Að mótmæla því í raunheimi er að berjast fyrir betri heimi en Alfonso Cuarón varaði okkur við.“