Aldís Amah Hamilton leikkona segir lesendum Fréttablaðsins frá listinni sem breytti lífi hennar. Aldís segir að kvikmyndin Avatar eftir James Cameron hafi haft mikil áhrif á sig þegar hún sá hana í bíói 2009.
„Ég var 18 ára þegar Avatar kom út og fór á hana í bíó. Ég ætla að taka það fram að mér er alveg sama (ekki alveg sama, en svona) hvað fólk segir um söguþráðinn eða gæði handritsins, þessi mynd gjörsamlega heltók mig. Þegar ég kom heim grét ég óstjórnlega alveg heillengi af sorg yfir því að geta ekki leikið í nákvæmlega þessari mynd, þó svo að ég hefði ekki hugmynd um hana fyrr en ég sá hana, og yfir því að geta ekki verið raunveruleg geimvera sem flýgur um á risaeðlufuglum og stekkur á milli kletta.
Þessi sorg fylgir mér enn þann dag í dag og er eflaust ástæðan fyrir því að ég tek þætti eins og Game of Thrones og ýmsa tölvuleiki alltaf of nærri mér. Ævintýraþráin hefur dofnað með aldrinum en hún er alltaf þarna. Ætli hún eigi ekki sinn hlut í því að ég varð leikkona? Ég get allavega látist vera geimvera svona þegar að tækifærin bjóðast, og það á launum.“
Þegar ég kom heim grét ég óstjórnlega alveg heillengi af sorg yfir því að geta ekki leikið í nákvæmlega þessari mynd.