Í dag undir­rituðu Dagur B. Eggerts­son borgar­stjóri og Una Dóra Copl­ey, dóttir Nínu Tryggva­dóttur lista­konu, samning um stofnun Lista­safns Nínu Tryggva­dóttur og fór undir­ritunin fram í Höfða. Þetta er fyrsta mynd­lista­safn Reykja­víkur­borgar sem kennt er við og til­einka ís­lenskri lista­konu.

Unnið hefur verið að samningnum undan­farna mánuði. Því hefur fylgt skráning safn­eigna, gerð stofn­skrár safnsins, úr­lausn erfða­mála og fleira að því er segir í frétta­til­kynningu frá Reykja­víkur­borg.

Samningurinn var undir­ritaður í Höfða.
Mynd/Sigurjón Ragnar Sigurjónsson

Safnið verður stað­sett í austur­hluta Hafnar­hússins í Reykja­vík en í vestur­hluta þess er Lista­safn Reykja­víkur. Þegar safnið verður opnað verður allt Hafnar­húsið undir lista­starf­semi.

Í samningnum er kveðið á um að Una Dóra, sem er einka­dóttir Nínu, á­nafni Reyk­víkingum vel á annað þúsund lista­verka eftir móður sína sem endur­spegla allan feril hennar. Um er að ræða mál­verk, teikningar, gler­verk og vatns­lita­myndir.

Nína er einn merkasti abstrakt-expressjónistinn í íslenskri listasögu.
Mynd/Þjóðminjasafn Íslands

Auk þess gefur Una Dóra Reyk­víkingum fast­eignir á Man­hattan-eyju í New York og í Reykja­vík að sér látinni, sem og aðrar lista­verka­eignir, bóka­safn og fleiri muni.

Í morgun sam­þykkti Borgar­ráð að efna til svo­kallaðs hugar­flugs og sam­ráðs vegna út­færslu á Hafnar­húsinu. Kallað verði eftir við­horfum og hug­myndum til undir­búnings hönnunar­sam­keppni þar sem út­færðar verði breytingar á húsinu til að rúma Safn Nínu Tryggva­dóttur, stækkun Lista­safns Reykja­víkur á­samt öðru.

Mósaíkmynd eftir Nínu í Skálholtskirkju.
Mynd/Wikipedia

Nína Tryggva­dóttir (1913-1968) var einkum þekkt sem list­málari en samdi einnig og mynd­skreytti bækur fyrir börn. Hún fæddist 16. mars árið 1913, skírð Jónína, á Seyðis­firði og naut á sínum yngri árum til­sagnar Ás­gríms Jóns­sonar í teikningum.

Með­fram námi við Kvenna­skólann í Reykja­vík stundaði Nína list­nám í skóla Finns Jóns­sonar og Jóhanns Briem. Að því loknu fór hún til Kaup­manna­hafnar og nam list­málun við Det Kongeli­ge Akademi for de Skønne Kun­ster.

Nína bjó síðar í París, London og lengst af í New York en hélt ávallt nánum tengslum við Ísland og hélt fjölmargar einkasýningar hérlendis sem og erlendis. Nína var virkur félagi í hreyfingu abstrakt-expressjónista í New York og má finna listaverk hennar í söfnum og í einkaeign víða um heim.

Mál­verkið Götu­mynd - Hús í Gríms­staða­holti frá árinu 1940.
Mynd/Listasafn Reykjavíkur