Fær­eyska tón­listar­konan Eivør Páls­dóttir nýtur þess að hafa nóg að gera. Hún hefur ný­lokið tón­leika­ferða­lagi um Evrópu þar sem hún fylgdi eftir nýrri plötu sem kom út á síðasta ári, og í byrjun nóvember hlaut hún Tón­listar­verð­laun Norður­landa­ráðs fyrir yfir­grips­mikið fram­lag sitt til nor­rænnar tón­listar­senu og fær­eyskrar tón­listar og tungu. Í byrjun desember slær hún síðan upp ár­legum jóla­tón­leikum hér á landi. Nýja árið hefst svo með tón­leika­ferð um Banda­ríkin.

Það stafar fyrir­hafnar­laus stjörnu­ljómi af fær­eysku tón­listar­konunni Eivøru Páls­dóttur, þegar hún mætir blaða­manni á kaffi­húsi á vinda­sömu vetrar­kvöldi í mið­bæ Reykja­víkur. Hún er klædd í síða svarta kápu og heldur á stórum poka úr flottri tísku­verslun, og minnir svo­lítið á gull­aldar­stjörnu frá Hollywood. Það er stutt í hláturinn og hún fórnar höndum, spurð út í jóla­tón­list og Fær­eyjar.

Fær­eyska tón­leika­hefðin ung

„Það er alls ekki jóla­tón­listar­sena í Fær­eyjum. Ég hef heldur aldrei gefið út jóla­plötu, en hef verið gestur á alls konar jóla­tengdum tón­leikum á Ís­landi,“ segir hún. Eivør segist nýta þannig tæki­færið til að heim­sækja ís­lenska vini.

„Í Fær­eyjum er stór kántrí-sena. Hún er mikið til fyrir fólkið sem situr heima í stofu úti á landi og vill bara heyra þannig tón­list. En svo er líka stór neðan­jarðar­tón­listar­sena. Þar er fullt af flottu ungu tón­listar­fólki sem er að gera spennandi hluti, en synd að ekki sé mikill vett­vangur fyrir það. Annað hvort er í boði risa­stórt flott tón­listar­hús, eða ein­hver pínu­lítill staður.“ Eivør segir að þar þurfi að brúa bilið, en þó sé þróunin í rétta átt.

Eivør nýtur þess að hafa nóg að gera
Fréttablaðið/Valli

„Þegar ég byrjaði var ekki hægt að spila tón­leika neins staðar. Ég byrjaði að spila í böndum þegar ég var 13 ára og einu tæki­færin snerust um að spila á dans­leikjum. Fólk fór eigin­lega ekki á tón­leika. Ég var þannig alltaf að spila fyrir dansi og þurfti að hafa mömmu með, ég var svo ung og ég mátti ekki vera þarna.“ Hún segir að fær­eyska tón­leika­hefðin hafi með árunum þróast og síðan náð út fyrir böllin. Fyrst um sinn hafi nokkrir gestir hreiðrað um sig nær sviðinu til þess að hlusta, en síðan hafi þeim farið fjölgandi. Og nú sé komin sena.

„Ég byrjaði að spila með bandi sem heitir Click­haze upp úr 1999. Þetta var hópur tón­listar­unn­enda sem höfðu ást­ríðu gagn­vart tón­list, af því tagi sem ég gat tengt við.“ Í fram­haldinu stofnaði hópurinn tón­listar­klúbbinn GRÓT, sem stóð fyrir litlum tón­leikum.

„Fljót­lega stækkaði þetta og varð að sam­fé­lagi tón­listar­unn­enda og tón­listar­senan fór að blómstra fyrir al­vöru.“ Hún bætir við að margt hafi gerst í tón­listar­senu Fær­eyja síðustu 20 árin. „Í dag eru Fær­eyingar mjög á­huga­­samir um alls konar tón­leika­hald og það gleður mig rosa­lega mikið.“

Eivør byrjaði að spila á böllum þegar hún var 13 ára gömul.
Fréttablaðið/Valli

Streymi fyrir 100 þúsund manns

Eivør er út­sjónar­söm og fann nýja fleti á tón­listar­ferlinum þegar hún gaf út plötuna Segl, í miðjum heims­far­aldri. „Fyrir mér er aðal­málið það að koma fram, en tón­listin breytist, fer á flug og fær vængi þegar maður spilar.“ Hún var þó snögg að að­laga sig breyttum að­stæðum. Hún hélt röð smærri út­gáfu­tón­leika í Nor­ræna húsinu í Fær­eyjum, hljóð­ritaði og gaf út á plötu, og gat þannig fært hlust­endum tón­leika­upp­lifunina, að ein­hverju leyti, heim í stofu.

Hún hefur á seinni árum tekið tæknina og sam­fé­lags­miðla í sátt. „En það er heil­mikil vinna sem fylgir þessu. Fyrir nokkrum árum hafði ég alls ekki séð fyrir mér að ég gæti orðið þessi sam­fé­lags­miðla­týpa. En svo hef ég reynt að læra að­eins inn á þetta og reynt að skipu­leggja tímann. Það er auð­velt að vera alltaf í símanum, en ég reyni að slökkva inni á milli. Þetta var allt svo skrýtið, þegar öllum tónleikum var aflýst.“

Eivør segist þá hafa snúið sér að lagasmíðum og tónleikum í streymi, að heiman. „100 þúsund manns horfðu á fyrsta streymið á Youtube,“ segir hún og hlær. „Ég var í algjöru sjokki, ekki búin að greiða mér almennilega. En það var magnað að upplifa hvernig heimurinn leitaði leiða til að tengjast og koma saman.“

Allt í einu kemur kaos

Hún segir síðustu tvö ár hafa verið krefjandi: „Ég fékk engar tekjur og maður þurfti bara að bjarga sér.“ Hún bætir síðan við að hún hafi málað mjög mikið og segist nota myndlistina til að fá útrás fyrir sköpunargleðina: „Ég mála þegar ég er ekki að ferðast. Það er þessi löngun til að skapa eitthvað, ég verð pínu klikkuð ef ég næ ekki að losa um þessar tilfinningar.“

Hún ítrekar þó að hún hafi meðvitað valið tónlistina fram yfir myndlistina. „Maður getur ekki gefið sig allan í bæði. En ef ég finn tíma, þá mála ég.“ Hún útilokar ekki að halda málverkasýningu og bætir við: „Ég er örugglega komin með nóg af málverkum í það. Ég sæki alltaf í kyrrðina og náttúruna, og að vera ein með sjálfri mér. Það hjálpar mér að endurstilla mig og fá yfirsýn.“

Auk þess að vera tónlistarkona, hefur Eivør notað myndlistina til að fá útrás fyrir sköpunargleðina.
Fréttablaðið/Valli

Hún nefnir í því samhengi bústað í Færeyjum. „Hann er aðeins í burtu frá öllu, rétt við sjóinn. Þar er ekkert að gerast, engin búð og ekki neitt.“

Hún sækir kyrrðina líka í hugleiðslu og segir áhugann alltaf hafa verið til staðar, en fyrir ári síðan hafi hún byrjað fyrir alvöru. „Ég fann að ég þurfti að róa hugann. Ég er alltaf með svo margt í gangi og mikið af pælingum. Mér finnst gaman að gera alls konar! Svo allt í einu kemur kaos, og þá þarf ég þessa ró, þannig að ég geti fengið aftur þessa orku.“

Hún segist nota TM-hugleiðslu­aðferðina, sem er skammstöfun á enska heitinu Transcendal Meditation. „Ég var búin að heyra af þessu frá mörgum í listasenunni, þetta er svona David Lynch-hugleiðslan,“ segir hún og glottir. „Hann er til dæmis að kenna þetta. Þessi hugleiðsla er mjög einföld og það er hægt að gera hana alls staðar og hvenær sem er.“

Margir metalhausar að hlusta

Eivør ítrekar mikilvægi þess að fara eigin leiðir. „Það er auðvelt að brenna út ef maður nærir ekki listina. Mikilvægt að halda fast í það að gera það sem mann langar að gera. Listamenn þurfa að vera smá egóistar, maður þarf bara að skapa. Maður er kannski með einhverja hugmynd sem mann langar að gera og kveikja líf í, en um leið og maður fer að reyna að gera þetta fyrir einhvern annan, þá missir maður stöffið.

Þetta er eitthvað sem er mjög mikilvægt í listinni, maður þarf að vera sannur. Ég skapa alltaf það sem mig langar að heyra. Svo er fólk ekki alltaf sammála því,“ segir hún glettin.

Eivør hefur drepið niður fæti í alls konar tónlistarstefnum og má þar nefna djass, klassíska tónlist og elektrónískt popp. Þó hefur hún alltaf haldið fast í þjóðlagataugina og segir hlustendahópinn því æði fjölbreyttan: „Alls konar fólk er að hlusta; krakkar, gotharar og svo eldri borgarar. Og það er svo mikið af metalhausum á tónleikum úti í heimi.“

„Ég skapa alltaf það sem mig langar að heyra. Svo er fólk ekki alltaf sammála því,“ segir Eivør Pálsdóttir.
Fréttablaðið/Valli

Og það er sterk tenging við málm-tónlistarsenuna á nýjustu plötu Eivarar. Norski tónlistarmaðurinn Einar Selvik á með henni lag á nýju plötunni, en hann er fyrrverandi meðlimur svartmálms-bandsins Gorgoroth, auk þess að fara fyrir hinu geysivinsæla þjóðlagabandi Wardruna, sem treður upp í Hörpu seinna á þessu ári. Þá hefur hann einnig samið tónlist fyrir sjónvarpsþættina Vikings.

Þau Eivør eiga því kvikmynda­tónlistina sameiginlega, en hún samdi til dæmis tónlist fyrir sjónvarpsþættina The Last Kingdom. „Ég hef mikið verið að vinna í kvikmyndatónlist undanfarin ár. Það er ákveðin stemning þar sem hefur haft áhrif á hvernig ég pæli í minni tónlist. Allt sem maður fer í gegnum, á þessari ferð, hefur haft einhver áhrif á hvernig næsta verkefni verður.“

Hún segir hljóðheim kvikmyndatónlistarinnar þannig heyrast á nýjustu plötunni: „Heimurinn sem ég er í núna er svolítið mikið í elektróník. En svo þarf ég alltaf að fara í lífrænu hliðina líka. Mér finnst alltaf gott að finna jafnvægi á milli þess sem er alveg forritað og þess sem er spilað. Stundum hef ég fengið mikinn innblástur úr öðrum listformum, frá málverkum en líka bíómyndum. Það er stundum eins og listaverkið þekki mann, og kveiki í manni tilfinningu.“

Það er stundum eins og listaverkið þekki mann, og kveiki í manni tilfinningu.

Heppin og þakklát

Aðspurð segir Eivør #MeToo-hreyfinguna mikilvæga í tónlistarbransanum, og nefnir í því samhengi viðhorf til kvenna í tónlist. „Það er oft eins og fólk haldi að vegna þess að ég sé kona, þá semji ég ekkert sjálf og pródúseri ekkert. En það er aðeins að breytast, fólk er að pæla meira í þessu.“ Hún segist þó sakna þess að sjá ekki fleiri konur í tónlist: „Ekki bara söngkonur heldur líka pródúsenta, trommuleikara og bassaleikara.

Ég hef kannski verið heppin. Ég hef alltaf unnið með karlmönnum sem hafa borið virðingu fyrir því sem ég er að gera.“ Hún ítrekar þó að í stærra samhenginu halli á konur.

„Ég sá að Björk talaði um í viðtali að stelpur þyrftu að segja allt tíu sinnum sem körlum nægði að segja einu sinni. Þá fór ég að pæla svolítið mikið í þessu, og að þetta væri rétt hjá henni. En maður er bara svo vanur ástandinu.“

Spennir og spengir upp lögin

Eivør heldur í tónleikaferð um Bandaríkin eftir áramót. „Ég er að fara á fyrsta headline-túrinn minn í Ameríku, það er mjög spennandi. Ég er búin að taka eitt og eitt gigg í Bandaríkjunum en hef aldrei tekið heilan túr, svona einn og hálfan mánuð. En ég er góð í að vera á tónleikaferðalagi, mér finnst gaman að komast í flæði frá einum tónleikum til þeirra næstu. Mér finnst gaman að spila lögin oft, þar er eins og maður spenni þau og spengi upp og þá kemur eitthvað nýtt.“ Hún bætir síðan við: „Svo er auðvitað spennandi að hitta hlustendur.“

Jólatónleikarnir verða í Eldborg 5. desember. Þar hyggst Eivør taka blöndu af lögum frá ferlinum í bland við jólatónlist: „Ég kem með bandið mitt og nokkra leynigesti, ég get auðvitað ekki sagt frá því hverjir þeir eru. En bandið er svona fjölskyldan á tónleikaferðalaginu. Þetta eru allt strákar frá Færeyjum, en ég er til dæmis búin að spila með Mikael, bassaleikaranum mínum, í 23 ár. Trommuleikarinn og píanistinn eru svo nýjasta viðbótin í hópinn.“
Hún ítrekar í lokin þakklæti til tónleikagesta og aðdáenda, og segir að ekkert sé sjálfsagt. „Ég er alltaf mjög þakklát, tek því ekki sem gefnu. Það er gott að fólk nenni að hanga með mér í þessari brjáluðu ferð,“ segir hún og brosir.