Dýpsta sæla og sorgin þunga er yfirskrift sýningar sem stendur yfir í Kling & Bang og lýkur 14. mars næstkomandi. Titillinn er fenginn úr þekktu og ástsælu ljóði Ólafar frá Hlöðum. Sýningarstjórar eru Ingibjörg Sigurjónsdóttir, Katla Rós Völudóttir og Una Björg Magnúsdóttir.

Listamennirnir eru Anne Carson, Halla Birgisdóttir, Margrét Dúadóttir Landmark og Ragnar Kjartansson.

„Á sýningunni teflum við saman fjórum listamönnum og notum ljóð Ólafar til að tengja þá saman. Þessir listamenn eru mjög ólíkir en vinna með myndgervingu stórra tilfinninga í verkum sínum,“ segir Una Björg, annar sýningarstjóranna.

Húmor og tregi

Í hópi listamannanna er Anne Carson sem er þekkt skáld, grískuprófessor og fornfræðingur en sýnir nú myndlistarverk sín í fyrsta sinn. „Hún sýnir myndir af fjöllum, ljósritar teikningu sínar af þeim og málar ofan í og ljósritar síðan aftur og aftur. Hún skrifaði líka texta fyrir bókverk sem gefið var út í tengslum við sýninguna. Myndir af verkum listamannanna á sýningunni eru í þessu bókverki hennar,“ segir Una Björg.

Margrét Dúadóttir Landmark útskrifaðist úr Listaháskólanum í fyrra og sýnir nú nýja skúlptúra sem hún vann flesta sérstaklega fyrir sýninguna. „Í verkum sínum nær hún að fanga ákveðið jafnvægi á milli tilfinninga, það er bæði húmor og tregi í þeim,“ segir Una Björg.

Persónulegur miðill

Halla Birgisdóttir sýnir blýantsteikningar. „Blýanturinn er persónulegur miðill sem býður upp á marga möguleika. Ég sýni annars vegar stóra blýantsteikningu og hins vegar fjölmargar minni. Stóra teikningin er gerð beint á vegginn og er af konu með sjónauka.

Ég hef verið mjög upptekin af því hvernig við lesum í heiminn í kringum okkur og hvernig við náum að skilja hvert annað sem manneskjur í ólíkum raunveruleikum. Ég velti því sömuleiðis fyrir mér hvernig skilningurinn verður ekki bara til í gegnum orð heldur líka í gegnum það hvernig við hreyfum okkur og hvaða svipbrigði við gefum frá okkur,“ segir Halla.

Í Sælu er aría úr Brúðkaupi Fígarós stöðugt endurflutt. Mynd/Aðsend

Djúpheilög tónlist

Ragnar Kjartansson frumsýnir nýtt myndbandsverk, Sælu, þar sem síðasta arían úr Brúðkaupi Fígarós eftir Mozart er endurflutt stöðugt í tólf klukkustundir. Verkið var tekið upp í Redcat, Los Angeles, á Fluxus Festival LA Phil vorið 2019. Með aðalhlutverkin fóru Kristján Jóhannsson og Laurel Irene.

„Upphaflega gerði ég þetta verk árið 2011 fyrir Performa-listahátíðina í New York. Ég held ég hafi heyrt þessa aríu fyrst í kvikmyndinni Amadeus þegar ég var átta ára. Ég gjörsamlega dýrkaði þessa mynd og sá hana sjö sinnum þegar hún var í bíó. Einhvers konar hápunktur þessarar kvikmyndar er þessi aría. Hún hefur alltaf fylgt mér síðan. Þegar ég var unglingur blastaði ég henni í græjunum í eftirpartíum, síðan hef ég séð margar uppfærslur á Brúðkaupi Fígarós til að fá kikkið undir lokin þegar þessi aría fyrirgefningarinnar svífur yfir mann eins og snjókorn,“ segir Ragnar.

„Brúðkaup Fígarós er náttúrulega hápólitískt verk frá því rétt fyrir frönsku byltinguna og rétt eftir frelsisstríð Bandaríkjanna. Á þessum tíma er nútíminn að verða til með öllum sínum spurningum um mannvirðingu, réttindi og lýðræði. Þetta er gamanópera um óréttlæti, ofbeldi og forréttindi og var náttúrulega bönnuð víða fyrst um sinn. Það er í þessu atriði sem greifinn, sem hefur reynt að framfylgja „rétti“ sínum til að nauðga þjónustustúlkunni alla óperuna, biðst fyrirgefningar eftir að komist hefur upp um hann og greifafrúin segir: Ég fyrirgef þér af því að ég er blíðari en þú. Svo syngja allir að nú sé allt fyrirgefið. Þessi stutta aría er svo fáránlega falleg og sorgleg. Þetta er svo djúpt en líka yfirborðslegt.

Greifinn er kannski ekkert að meina þetta og greifynjan gerir bara það sem hún þarf að gera til að allir haldi lífi sínu og limum. Á yfirborðinu virðist allt gott en er einhvern veginn vonlaust. Það er ekki hægt að tjá þetta í orðum. Mozart tjáir þessar flóknu tilfinningar í tónlistinni. Svona hefur menning okkar alltaf verið; óréttlæti, iðrun og fyrirgefning sem bítur síðan aftur í skottið á sér. Þetta verk snýst um að formgera þessa aríu.“

Ragnar sýnir einnig nýtt málverk þar sem Eros og Venus eru í aðalhlutverki. „Þetta er málverk af dóttur minni, Sigurvinu Zítu. Hún elskar styttur og pósar oft með þeim. Við eigum Venusarstyttu og svo eigum við eftirmynd af Erosi. Hún setur oft teppi utan um kodda og liggur sem Eros. Ég málaði mynd af því. Málverkið er líka inspírerað af Anne Carson sem skrifaði bókina Eros the Bittersweet, sem er einhver magnaðasta bók sem skrifuð hefur verið um ástina.“