Ríkisstjórnin kynnti í morgun hertar aðgerðir til þess að bregðast við COVID-19 hér á landi þar sem kórónuveirusmit hafa verið að aukast síðastliðnu daga en í gær voru tíu ný tilfelli staðfest og því alls eru alls virk smit orðin 38 talsins.

Hertar aðgerðir taka gildi um hádegi á morgun en samkvæmt nýju reglunum miðast fjöldatakmörk við 100 manns og tveggja metra reglan verður skylda á ný. Um er að ræða mikið bakslag en til stóð að hækka fjöldamörkin upp í 1000 manns eftir verslunarmannahelgi og að lengja opnunartíma á börum og skemmtistöðum til klukkan 24:00.

Strax eftir fundinn var það ljóst að skipuleggjendur viðburða, sem áttu að fara fram víðs vegar um landið um verslunarmannahelgina, þyrftu að breyta sínum áætlum töluvert þar sem flestir viðburðir höfðu verið skipulagðir með 500 manna fjöldatakmarkanir í huga.

Hátíðunum Ein með öllu á Akureyri, Sæludögum í Vatnaskógi og Innipúkanum í Reykjavík hefur nú þegar verið aflýst og má búast við að fleiri bætist við. Fjölmargir listamenn hafa brugðist við reglunum á Twitter en margir hverjir áttu að koma fram á hátíðum um helgina.

Öll plön farið út um þúfur

Einn skipuleggjanda Innipúkans, Steinþór Helgi Arn­steins­son, sagði meðal annars í samtali við Fréttablaðið í gær að margra mánaða vinna væri að baki hátíðinni en litlar sem engar upplýsingar hafi fengist á síðustu dögum hvað reglurnar gætu falið í sér.

„Við sem erum í þessum menningar- og skemmti­bransa, þetta hefur bitnað lang ­harðast á okkur. Bæði varðandi fjölda­tak­markanir og opnunar­tíma,“ sagði Stein­þór. Hann bætti við að ekkert hóp­smit hafi komið upp hjá þeim heldur hafi í­þrótta­mótin verið helstu söku­dólgarnir en ekkert sé að því gert.

„Næs það er allavega næstum því uppselt á tónleikana mína á Egilsstöðum á morgun,“ skrifar rapparinn Emmsjé á Twitter en hann segist vera reiður og sár yfir ákvörðuninni þrátt fyrir að hann skilji að aðgerðirnar séu nauðsynlegar. „Eins gott að það hafi verið gaman á Rey Cup litlu skítarnir ykkar,“ bætir hann við.

Aðrir listamenn á borð við Jói Pé og Króli, Bubbi, og Saga Garðars hafa einnig tjáð sig um málið á Twitter. „Mikið þætti mér gaman ef landið væri lokað fyrir ferðamönnum,“ skrifar Saga Garðars meðal annars.

Tónlistarkonan Sigríður Thorlacius slær aftur á móti á létta strengi. „Sko. Þetta hefur áhrif á okkur flest. Vinnutap og breytt plön. Ekki leggjast á grúfu og skæla og fara í eiginhagsmunina. Það er ekki kúl,“ skrifar Sigríður. „Kær kveðja, Pollýanna.“

Sko. Þetta hefur áhrif á okkur flest. Vinnutap og breytt plön. Ekki leggjast á grúfu og skæla og fara í eiginhagsmunina. Það er ekki kúl. Kær kveðja, Pollýanna.

Posted by Sigríður Thorlacius on Thursday, July 30, 2020