Sunnudaginn 16. janúar klukkan 14 verður Katrín Elvarsdóttir með listamannsspjall um verk sín og sýninguna Söngfugla í Hafnarborg. Sá dagur er jafnframt síðasti sýningardagur sýningarinnar.

Á sýningunni má sjá ný verk eftir listakonuna frá því að hún heimsótti eyna Kúbu. Þar gekk hún um götur Havana með myndavélina að vopni en hún tók sérstaklega eftir því að margir eyjarbúar halda söngfugla í búrum á heimilum sínum.

Katrín hefur haldið fjölda einkasýninga hérlendis og erlendis. Þá hafa verk hennar verið sýnd á samsýningum víða. Fjórar bækur hafa áður verið gefnar út með ljósmyndum Katrínar og verður bókin Songbirds, sem kemur út samhliða sýningu hennar í Hafnarborg, sú fimmta.