Verkin, sem voru unnin á árunum 1971-1995, voru valin saman af Ingibjörgu og Birni Roth, syni listamannsins og nánasta samstarfsmanni. Ingibjörg segist mjög þakklát Birni fyrir samvinnuna. „Þegar sú hugmynd vaknaði að ég gæti fengið sýningu með verkum Dieters í galleríið fannst mér það stórkostlega spennandi,“ segir Ingibjörg.

Um áhrif Dieters segir Ingibjörg: „Dieter var eitt af stóru nöfnunum í listasögu seinni hluta síðustu aldar. Hann var það sem kallast listamaður listamannanna og hafði mikil áhrif á sér yngri listamenn. Hann var gífurlega frumlegur, fjölhæfur og afkastamikill. Vann og gerði tilraunir í alla hugsanlega miðla og efni. Sú listræna nýlunda sem hann kom fram með var einstök. Hann teiknaði, málaði, gerði bókverk, skúlptúra, innsetningar og vídeóverk. Hannaði skartgripi, leirgripi og mynstur fyrir textíliðnaðinn. Afköstin voru slík að það sem hann skildi eftir sig í hverri einstakri grein teldist ríkulegt lífsverk. Það sem einkennir þennan mikla afrakstur er frumleiki, næmni og mikil listræn gæði. Ég hef í gegnum tíðina séð margar sýningar á söfnum víðs vegar um heiminn með verkum Dieters og minnist þess ekki að hafa nokkurn tímann séð verk eftir hann sem ekki hefur verið innihaldsríkt og snert mig á einhvern hátt.“

Vatnaskil á Íslandi

Dieter fæddist í Þýskalandi 1930. „Í stríðinu var honum komið til Sviss, þangað sem foreldrar hans flytja að stríðinu loknu. Sextán ára gamall hefur hann nám í auglýsingateiknun með það fyrir augum að mennta sig í fagi sem fengi náð fyrir augum foreldranna, sem vildu að hann legði stund á hagnýtt nám, en sá einnig að þannig gæti hann fundið leiðir inn á lendur listarinnar. Samhliða náminu tekur Dieter einkatíma hjá teiknaranum Eugen Jordi sem reyndist einn mikilvægasti kennari Dieters á þessum fyrstu árum. Hann þróar þarna jöfnum höndum færni sína í grafískri hönnun og sjálfstæðri listrænni sköpun,“ segir Ingibjörg.

„Örlögin haga því þannig að um 1960 flytur Dieter til Íslands, hann býr hér alfarið í nokkur ár og er viðloðandi landið upp frá því. Á Íslandsárunum verða ákveðin vatnaskil í formlegri nálgun hans að listinni.“

Sýningin á verkum Dieters Roth stendur til 23. desember.

Ingibjörg segir að grafíkin hafi verð eins og rauður þráður í gegnum allan hans feril. „Dieter vinnur í allar þekktar aðferðir sem notaðar hafa verið í gegnum aldirnar og leggur sig einnig fram við að ná tökum á nýjum leiðum í prenttækni ásamt því að þróa sínar eigin aðferðir. Dieter vann oft með prentverkstæðum í Sviss, Þýskalandi og víðar, stundum í samvinnu við aðra þekkta listamenn. Á þessari sýningu eru dæmi um það, en hann vann þrjár myndir sem hér eru í samvinnu við breska listamanninn Richard Hamilton, þeir hófu einmitt samskipti á Íslandsárum Dieters, en þessar myndir eru þó gerðar síðar. Einnig er á sýningunni mynd sem hann vann í samvinnu við austurríska málarann Arnulf Rainer.“

Leikur í myndunum

Spurð hvað listamaðurinn sé að fást við í verkum sínum, segir Ingibjörg: „Mér er aldrei vel við að gera fólki, hvorki listamönnum né öðrum, upp hugsanir. Ég geri þó ráð fyrir að Dieter hafi verið að fást við sjálfan sig og ef til vill sjálfan sig í samhengi við heiminn. Það er venjulega eitt af því flóknasta sem nokkur maður tekur sér fyrir hendur. Hér er til dæmis sjálfsmynd þar sem hann ummyndar sjálfan sig í blómapott. Það er líka oft talsverður leikur í myndunum, hann hefur ekki tekið sjálfan sig, frekar en annað, of hátíðlega.“

Dieter var fulltrúi Sviss á Feneyjatvíæringnum árið 1982. Verk eftir hann er að finna í mörgum helstu söfnum, til dæmis Tate í London, MoMA í New York, Þjóðlistasafninu í Washington og Hamburger Banhof í Berlín. Dieter lést árið 1998. Arfleifð Dieters hefur verið viðhaldið og flutt áfram í gegnum skapandi starf sonar hans, Björns Roth.