Í dag er al­þjóð­legur dagur reið­hjólsins og af því til­efni hafa Hjóla­færni Ís­lands, Lista­safn Reykja­víkur og Lands­sam­tök hjól­reiða­manna tekið höndum saman og ætla að bjóða upp á hjóla­túr með leið­sögn. Hjólað verður um Vestur­bæinn í Reykja­vík og Sel­tjarnar­nesið og úti­lista­verk skoðuð með leið­sögn frá list­fræðingnum Markúsi Þór Andrés­syni, deildar­stjóra sýninga og miðlunar hjá Lista­safni Reykja­víkur. Á morgun er byrjað í Hafnar­húsinu og þaðan farið vestur í bæ og niður á Ægi­síðu.

„Á þeirri leið eru ýmis verk, eins og súlurnar á Haga­torgi og stytta Ás­mundar af björgun úr sjávar­háska. Þaðan förum við um Sel­tjarnar­nesið sem státar af ýmsum fal­legum verkum og við ætlum að enda í Golf­skálanum í hressingu eftir hjóla­túrinn,“ segir Markús.

Fyrsti túrinn á vegum þessara þriggja sam­starfs­aðila var farinn á full­veldis­daginn 1. desember, árið 2018. „Það var á hundrað ára af­mæli full­veldisins. Hjóla­færni og Lands­sam­tök hjól­reiða­manna hafa lengi átt í góðu sam­starfi en þarna nálguðumst við Lista­safn Reykja­víkur með þá hug­mynd að bjóða upp á túr í sam­einingu. Hann gekk vonum framar, þrátt fyrir mikið frost og vind. Þetta var alveg svaka­lega kaldur dagur en alveg ó­trú­lega skemmti­legur,“ segir Sesselja Trausta­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Hjóla­færni á Ís­landi.

Sól­farið góður hvíldar­staður

Eigið þið ykkar upp­á­halds­úti­lista­verk sem borgar­búar gera notið í reið­hjóla­túrum í sumar?

„Ég hlakka til að staldra við grá­sleppurnar hennar Steinunnar Þórarins­dóttur, verkið Flóð og fjara í göngu­stígnum á Ægi­síðu, það er verk sem mikill fjöldi borgar­búa gengur eða hjólar hjá en staldrar ef til vill ekki svo oft við, því það fer lítið fyrir verkinu,“ segir Markús.

„Það lista­verk sem flestir hjól­reiða­menn sjá á sinni leið er senni­lega upp­á­halds­verkið en það er Kvika eftir Ólöfu Norð­dal. Annars upp­götvar maður alltaf ný verk í þessum ferðum og þá tekur maður betur eftir þeim og kann betur að meta úti­lista­verkin,“ segir Árni, for­maður Lands­sam­taka hjól­reiða­manna.

„Mér finnst alltaf skemmti­legast að stoppa hjá Sól­farinu. Það er líka góð áning, það er gott að hvíla sig þar. Mér finnst svo frá­bært að þegar þú hjólar þessa helstu hjól­reiða­stíga, þá hjólar þú ekki fram hjá neinum búðum, þú hjólar bara fram hjá lista­verkum.“

Skammast sín fyrir bíla­stæðið

Markús segir hjól­reiðar kannski ekki stóran part af sínu lífi. „En ég hef unun af því að hjóla um og það er frá­bær leið til að skoða lista­verkin í borginni. Í fyrra vorum við í safninu með sér­staka á­herslu á list í al­manna­rými og út­bjuggum smá­forritið Úti­list í Reykja­vík. Þar var hljóð­leið­sögn og ýmsar leiðir sem hægt er að ganga eða hjóla og njóta leið­sagnar um verk í ó­líkum hverfum borgarinnar,“ segir Markús.

Árni hefur lengi haft mikinn á­huga á öllu tengdu hjól­reiðum. „Ég hef náttúr­lega hjólað frá því ég var barn. Ég byrjaði síðan að hjóla af ein­hverri al­vöru til sam­gangna upp úr tví­tugu og síðan hefur þetta verið einn af þeim sam­göngu­mátum sem ég nýtt mér til að komast á milli staða. Það er svo í kringum árið 2008 sem ég fer að taka þátt í hags­muna­bar­áttu hjól­reiða­manna,“ segir Árni.

Það er um ára­tugur síðan Sesselja hóf störf fyrir Hjóla­færni á Ís­landi, og hefur á­hugi hennar á hjól­reiðum aukist mikið á þeim tíma.

„Þegar ég keypti húsið mitt fyrir fjór­tán árum síðan þá var það fyrsta sem ég hugsaði: Hvað get ég búið til mörg bíla­stæði í kringum húsið mitt? Í dag skammast ég mín fyrir þetta eina bíla­stæði sem eftir er. Ég var hérna áður eins og klassískur Ís­lendingur en svo sá ég ljósið,“ segir Sesselja og hlær.

Hjól­reiða­túrinn hefst við Lista­safn Reykja­víkur í dag klukkan 18.00.