Listahátíð í Reykjavík fagnar 50 ára afmæli í ár. Til stóð að hún færi fram 6. til 21. júní en vegna aðstæðna í heiminum, sem ekki þarf að útskýra frekar, gildir sú dagsetning ekki lengur. Listahátíð verður samt haldin. Sætt verður færis og hver viðburður haldinn þegar öruggt þykir og hægt verður að koma honum við. Meginviðburðir hátíðarinnar eru hátt í fjörutíu og annar eins fjöldi er af smærri viðburðum.

Stigið út í óvissuna

„Við höfum tilkynnt heildardagskrá hátíðarinnar alfarið án dagsetninga. Í stað þess að aflýsa hátíðinni líkt og vel flestar sambærilegar hátíðir í Evrópu eru að gera, höfum við ákveðið að stíga út í óvissuna með listafólkinu okkar og samstarfsaðilum,“ segir Vigdís Jakobsdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar. „Listafólk um heim allan er að taka á sig mikinn skell vegna aflýstra viðburða og mér finnst mikilvægt að Listahátíð geri allt sem í hennar valdi stendur til þess að standa við sitt gagnvart því listafólki sem við höfðum gert samkomulag við.“

Yfirskrift hátíðarinnar í ár er Heimar. „Heimar er systurþema síðustu hátíðar sem var Heima. Heima snerist meðal annars um sjálfsmyndina, hver við erum og réttinn til þess að eiga einhvers staðar heima,“ segir Vigdís. „Þessi þemu Heima og Heimar voru allt frá upphafi hugsuð sem par. Í ár horfum við út á við, upp í himingeiminn og niður í heima hins allra smæsta líka, við skoðum heima sem mætast og stígum inn í aðra heima. Listahátíð, sem á 50 ára afmæli í ár, opnaði á sínum tíma umheiminn fyrir Íslandi og öfugt, þannig að þetta þema á mjög vel við á afmælisárinu.“

Umtalað listaverk

Spurð um hápunkta á hátíðinni segir Vigdís: „Sigurverk Feneyjatvíæringsins Sun & Sea (Marina), sem er óhætt að segja að var umtalaðasta listaverk heims í fyrra, verður sett upp í porti Listasafns Reykjavíkur. Portinu verður breytt í manngerða baðströnd þar sem tugir manna verða í sólbaði allan daginn. Fólk liggur á ströndinni, skoðar símann sinn, leysir krossgátur, börn leika sér með bolta og hundur hleypur eftir priki.

Þetta er litháískt verkefni, samtímaópera með tólf söngvurum. Söngurinn er lágstemmdur og þar er fjallað um hversdagslega hluti en smátt og smátt skynjar maður undirtóninn, undirliggjandi vá sem er umhverfisváin, en við erum bara að sóla okkur og fljótum sofandi að feigðarósi. Verkið verður flutt sleitulaust í tvo daga, sex tíma í senn.“

Stórsýning í Listasafni Íslands

Risastór viðbótarveruleikasýning, franskt-íslenskt verkefni, verður sett upp í Listasafni Íslands. „Áhorfendur stíga inn í heim verksins í litlum hópum með sérstakan búnað á höfðinu sem gerir þeim kleift að sjá og heyra meira en mætir berum augum. Verkið er í raun dystópía – möguleg framtíð jarðarinnar – sem við upplifum sem utanaðkomandi gestir,“ segir Vigdís.

„Meðal annarra stórra viðburða er stórsýning Gilberts og Georgs í Listasafni Reykjavíkur og sirkus akróbata-sýning frá Ástralíu. Svo erum við með magnaða danssýningu frá Austurríki þar sem allir dansararnir eru líkamlega fatlaðir en verkið fjallar í raun um óendanlega möguleika líkamans til hreyfingar og tjáningar. Svo verður að nefna tónleika Víkings Heiðars Ólafssonar í Hörpu þar sem hann spilar verk eftir Debussy og Rameau. Það er mikil spenna fyrir þeim tónleikum og gaman að geta þess að Víkingur kom í fyrsta sinn fram á Listahátíð fyrir réttum 20 árum, þá aðeins sextán ára gamall,“ segir Vigdís. Dagsetning er komin á þá tónleika, en fyrirhugað er að halda þá 6. og 7. september. „Á hátíðinni verður einnig flutt nýtt verk eftir Önnu Þorvaldsdóttur í Stjörnuveri Perlunnar. „Á 50 ára afmæli Listahátíðar er ekkert minna en stórkostlegt að mörg af stærstu nöfnum hátíðarinnar á heimsmælikvarða eru íslensk.“

Og Vigdís heldur áfram: „Listahátíð þorir líka út á jaðarinn og staðsetur það smæsta og tilraunakenndasta í miðjuna líka. Það er af nægum slíkum viðburðum að taka í ár. Margir af þeim viðburðum fara fram í Iðnó, þar sem Klúbbur Listahátíðar mun spretta fram með reglulegu millibili. Yfirtökur jaðarlistahópa, liggjandi tónleikar og 12 tíma partý þar sem reykvískar fjölskyldur; margar hverjar af pólskum uppruna, taka á móti gestum, er meðal þess sem þar verður boðið upp á. Allt á réttum tíma.“