Í listhópunum er ungu fólki gefinn kostur að sækja um og koma með hugmyndir að skapandi verkefnum, síðan eru einstaklingar valdir sem fá tækifæri til að vinna að list sinni yfir sumartímann.

Á vikulegum föstudagsfiðrildum sýndu listhóparnir verk sín víðsvegar um Reykjavík og endað er á lokasýningunni Vængjaslætti á morgun. Þá verður hægt að velja úr sýningum á ýmsum stöðum bæjarins, til dæmis verða söngkonan Jóhanna Elísa og myndlistakonan Anna Margrét með samsýningu í Eymundsson á Austurstræti og Mannfuglar verða með tónleika á Hjartatorgi.

Jóhanna Elísa

Jóhanna Elísa lagahöfundur og söngkona fær innblástur frá málverkum. Hún útskrifaðist úr Tónlistarskóla FÍH og stundar nú tónlistarnám við Listaháskóla Íslands (LHÍ). Jóhanna er að gefa út breiðskífu á næstunni þar sem flest lögin tengjast einhverju málverki. Jóhanna segir að sú hugmynd að semja lög út frá málverkum hafi komið upp í kollinum þegar hana vantaði texta við laglínu á píanó sem hún samdi.

„Fyrir ofan píanóið hékk mynd sem ég keypti af götulistamanni í Osló.“ Jóhönnu fannst myndin passa einstaklega vel við laglínuna. „Ég prófaði að setja mig inn í myndina og semja textann út frá því sem mér fannst vera að gerast á myndinni. Á þessu augnabliki upplifði ég mig einhvern veginn sem hluta af málverkinu.“

Eftir það var ekki aftur snúið og Jóhanna var ekki lengi að drífa sig á Kjarvalsstaði. „Ég tók myndir af málverkum, tók upp laglínu sem kom í hausinn þegar ég sá eitt verkið og samdi texta við annað.“ Sköpunarferlið virkar þannig að Jóhanna horfir á málverkið og býr til einhverja sögu sem hún telur að eigi sér stað á málverkinu. Síðan verður til lag úr því, hvort sem textinn eða laglínan er innblásin af málverkinu.

Mannfuglar

Kristján Þórhallsson og Tumi Torfason í hljómsveitinni Mannfuglar hafa verið að semja tilraunakennda tónlist úr fuglahljóðum. Kristján er líffræðingur á meðan Tumi hefur verið í tónlistarnámi, en báðir hafa eflst í hvoru faginu fyrir sig. „Ég hef lært hljóðfræði frá því ég var pínulítill og Tumi var að læra líffræði í MR,“ segir Kristján. „Þannig við höfum oft spilað saman og rætt um bæði líffræði og tónlist, en undanfarin tvö eða þrjú ár hef ég farið meira í líffræðina og Tumi í tónfræðina.“

Fuglarnir kenna strákunum tónlist og öfugt.

Tumi bætir við að strákarnir höfðu verið að spá hvort það væri einhver snerti flötur á milli líffræði og tónlistar. „Fuglasöngur var svarið.“ Fyrst ætluðu strákarnir að kenna starafugli djasssöng enda getur sú fuglategund hermt eftir umhverfishljóðum. „Það er eitthvað sem við ætlum að prófa og sjá hvort fuglarnir í borginni fari að syngja djass,“ segir Tumi. „Undirtitillinn á verkefninu er Laglínur milli fugla og manna. Þetta fer svona í báðar áttir.“

Strákarnir hafa farið þvers og kruss að taka upp fuglahljóð og semja úr þeim lög sem þeir skipta í þrjú þemu. Fyrst héldu þeir tónleika á Kaffi Vínyl og spiluðu tónlist unna úr spörfuglasöng. Svo héldu þeir tónleika í Hörpunni með sjófuglasöngtónlist og síðan voru tónleikar í ráðhúsinu með vatnafuglaþema.

Eftir tónleikana á lokasýningunni á morgun verða bæði Mannfuglar og Jóhanna Elísa með tónleika ásamt öðrum tónlistarhópum Hins hússins á mánudaginn næsta.

Karlsdæturnar þrjár

Anna Margrét Jónudóttir er 19 ára listakona sem útskrifaðist af listabraut Fjölbrautaskóla Garðabæjar (FG) vorið 2018. Verkefni Önnu í sumar var að handteikna stuttmynd sem fjallar um þjóðsöguna Karlsdæturnar þrjár. Myndin er fyrir alla aldurshópa en er þó sérstaklega tileinkuð börnum með því markmiði að vekja áhuga barna á íslenskum þjóðsögum og íslenskri tungu.

Anna Margrét mun frumsýna stuttmynd á morgun.

Anna sér um alla þræði stuttmyndarinnar, allt frá því að handmála rammana, taka upp málverkin og búa til hreyfimynd úr þeim, semja tónlistina, klippa myndina og fótósjoppa.

„Ég sem tónlist fyrir hverja einustu persónu. Karlsdæturnar þrjár heita Ása, Signý og Helga, þær munu allar eiga sérstakt lag sem ég spila þegar það er verið að segja frá þeirri sögu.“

Karl faðir dætranna mun líka eiga sitt lag. „Hann er þybbinn og strangur karl. Ég var búin að ímynda mér að túlka hans karakter með básúnu sem myndi fylgja honum í myndinni.“ Síðan verður til dæmis Helgu Karlsdóttur fylgt með strengjahljóðfærum. „Hún er góð og lagleg kona þannig að lagið hennar verður ljúft og ævintýralegt.“

Allt myndefni stuttmyndarinnar er handmálað af Önnu.

Anna hefur áður reynt við stuttmyndagerð í lokaverkefni sínu af listabraut FG. „Þá tók ég upp vatn sem ég blandaði við allskonar málningu og olíu sem myndaði hreyfingar í vatninu. Síðan samdi ég tónlist við myndbandið. Ég hef líka dundað mér endalaust við að búa til tónlistarmyndbönd við lög sem mér finnst flott.“ Stuttmyndin um Karlsdæturnar þrjár verður fyrsta alvöru kvikmyndin sem Anna hefur gert og hún segist leggja allt sitt í að gera hana fagmennskulega.