Tuttugu verk eru á sýningu sem nú stendur yfir í Gallery Porti á Laugavegi. „Tuttugu og einn listamaður á verk á sýningunni, þar af er eitt samstarfsverkefni,“ segir Árni Már Erlingsson, myndlistarmaður og annar eigandi gallerísins.

„Þegar við ákváðum að opna samsýningu í galleríinu 20. febrúar 2020 þá spratt hugmynd um að vinna út frá tölunni 20. Við ákváðum að verkin skyldu vera lítil, 20x20 sentimetrar, og ef um myndbandsverk væri að ræða þá skyldu þau vera 20 sekúndur eða 20 mínútur. Við fengum til okkar listamenn sem máttu gera hvað sem var, meðan þeir voru tilbúnir til að vinna innan þessa ramma. Flestir þeirra hafa sýnt í galleríinu áður, þó ekki allir. Hópurinn samanstendur að mestu af yngri listamönnum en þarna eru líka eldri listamenn: Eggert Pétursson, Hallgrímur Helgason, Pétur Magnússon ásamt Björk Þorgrímsdóttur,“ segir Árni Már.

Sýningin er sölusýning og um helmingur verkanna hefur þegar selst.

Fjögurra ára afmæli

Gallery Port var stofnað í mars 2016 og á því fjögurra ára afmæli í þessum mánuði. „Þetta var hugmynd sem átti aldrei að verða. Við Skarphéðinn Bergþóruson og Þorvaldur Jónsson fengum úthlutað þessu plássi og til stóð að það yrði einungis í nokkra mánuði því það átti að rífa húsnæðið. Við fórum af stað með öflugar sýningar og alltaf frestaðist að húsnæðið yrði rifið. Við héldum því bara áfram. Þorvaldur sneri sér síðan að öðru en við Skarphéðinn erum enn í rekstrinum,“ segir Árni Már. Þess má geta að félagarnir þrír eiga allir verk á sýningunni.

Halda ótrauðir áfram

Spurður hvernig reksturinn gangi segir Árni Már: „Það hefur kostað átak að halda þessu gangandi en starfsemin hefur þrifist í þennan tíma. Við höldum ótrauðir áfram.“

Það eru aðallega ungir myndlistarmenn sem sýna í galleríinu „Við erum að stórum hluta að vinna með listamönnum sem útskrifuðust úr skólum fyrir 10-15 árum. Það kemur fyrir að eldri listamenn sýni hér og þar má nefna Snorra Ásmundsson, Pétur Magnússon og Hrein Friðfinnsson,“ segir Árni Már.

Sýningunni lýkur 22. mars.