Listmeðferðir eru af ýmsum toga, enda ólíkar þarfir meðal notenda. Þessar nálganir hafa reynst fólki á öllum aldri vel, hvort sem um er að ræða börn, unglinga eða fullorðna. Oft miða þær að því að kanna tilfinningar, bæta sjálfsálit, stjórna fíknum, létta á álagi, bæta einkenni kvíða, átraskana og þunglyndis ásamt því að takast á við líkamleg veikindi eða fatlanir, svo fátt eitt sé nefnt.

Hugtakið listmeðferð kom fram á sjónarsviðið árið 1942 og var það breskur listamaður að nafni Adrian Hill sem átti heiðurinn af því. Á meðan Hill glímdi við berkla, uppgötvaði hann kosti þess að mála og teikna. Á fimmta áratugnum varð hugtakið listmeðferð svo æ vinsælla meðal þeirra sem unnu með sjúklingum sem glímdu við geðræn vandamál.

Meðal þess sem notendur listmeðferða fást við er það að mála, hvort sem það er með pensli eða fingrum, búa til skúlptúra, teikna, skrifa, skissa, skera út eða móta úr leir.

Fyrir unga sem aldna

Listmeðferðir hafa til dæmis skilað góðum árangri meðal barna sem glíma við athyglisbrest. Ein af helstu ástæðunum er talin sú að sköpun listar er örvandi en þau sem þjást af ADHD sækja gjarnan í örvun vegna þess að hún eykur upptöku á dópamíni og hjálpar viðkomandi þannig að viðhalda einbeitingu. Listsköpun getur auðveldað einstaklingum með ADHD að tjá líðan sína og koma hugsunum sínum í orð. Meðferðir af þessum toga hafa í mörgum tilfellum skilað jafnvel betri árangri en huglæg atferlismeðferð. Myndir geta sannarlega sagt meira en þúsund orð.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að aldraðir sem glíma við heilasjúkdóma ná oft góðum árangri með listmeðferðum. Það að læra nýja hluti og tileinka sér nýja færni er talið styrkja minnið og stuðla að bættri heilastarfsemi. Meðferðin getur til dæmis falist í því að búa til hluti í höndunum og hlusta á tónlist. Félagslegi ávinningurinn er oft umtalsverður. Þau sem hafa tekið þátt í slíkum meðferðum segjast upplifa minni einmanaleika en einangrun er algengt vandamál meðal aldraðra. Þá eru listmeðferðir taldar draga úr einkennum þunglyndis og lyfjanotkun auk þess að auka bæði félagslega virkni og einbeitingu.