Mynd­lista­maðurinn Fritz Hendrik IV opnar einka­sýninguna Regn­bogi hunds í Gallerí Þulu á Hjarta­torgi í dag. Sýningin er unnin út frá sjónar­horni hunds sem fylgist með heiminum úr bíl og tekur lita­palletta verkanna, upp­röðun og við­fangs­efni mið af skynjun besta vinar mannsins.

„Ég var í bíl­ferð að ferðast um landið síðasta sumar. Í mínu sam­bandi þá keyrir kærastan mín alltaf því hún er svo mikill aftur­sætis­bíl­stjóri sem far­þegi hjá öðrum og mér finnst bara fínt að vera í far­þega­sætinu og DJ-a. Mér leið svo­lítið á þessari hring­ferð eins og hundi í bíl af því ég var bara ein­hvern veginn með hausinn út um gluggann að horfa. Þá fékk ég þessa hug­mynd að sýningunni, að í­mynda mér hvernig það væri að vera hundur, af því þeir eru náttúr­lega með aðra lita­skynjun en við,“ segir Fritz.

Mér leið svo­lítið á þessari hring­ferð eins og hundi í bíl af því ég var bara ein­hvern veginn með hausinn út um gluggann að horfa. Þá fékk ég þessa hug­mynd að sýningunni...

Rann­sakaði skynjun hunda

Hann lagðist í rann­sóknar­vinnu á skynjun hunda og notaði meðal annars smá­forritið Dog Vision sem gerir not­endum kleift að sjá heiminn eins og hundar skynja hann.

„Ég hélt alltaf að þeir sæju bara svart­hvítt en svo fór ég að kynna mér þetta og þá sjá þeir bláan og gulan lit. Þeir eru sem sagt með ein­hverja út­gáfu af rauð­grænni lit­blindu,“ segir Fritz.

Á sýningunni eru sex olíu­mál­verk sem eru máluð með litum sem hundar sjá og í miðju sýningar­rýmisins má sjá skúlptúr í formi hindrunar sem notaðar eru á hunda­sýningum með þremur stöngum, blárri, grárri og gulri, sem tákna hinn eigin­lega regn­boga hunds.

„Þetta er svona eins­hvers konar mynd­ræn fram­setning á regn­boga hunds, ef hundur sæi regn­boga, af því hans regn­bogi er náttúr­lega strípaðri heldur en okkar,“ segir Fritz.

Verkin á sýningunni eru öll máluð í litum sem taka mið af litaskynjun hunda.
Mynd/Fritz Hendrik IV

Lyktin af ný­slegnu grasi

Auk mál­verka og skúlptúra má einna finna lyktar­verk sem um­lykur sýningar­rýmið og minnir á lyktina af ný­slegnu grasi. Þá eru ferómón í lyktar­dreifinum sem hafa róandi á­hrif á hunda.

„Það var í raun bara hluti af því að reyna að setja sig í spor þessa hunds. Hundar náttúr­lega skynja um­hverfi sitt að miklu leyti með lyktar­skyninu þannig að mér fannst á­huga­vert að skoða það. Ég fékk góða hjálp frá henni Lilju Birgis­dóttur í Fischer, fékk að stíga öðrum fæti inn í ilm­gerðina hjá þeim. Ég fann á netinu hvaða efna­fræði­legu eigin­leika ný­slegið gras hefur og þau áttu meira að segja til mjög sér­stakar ilm­olíur fyrir það,“ segir Fritz.

Myndirðu segja að sýningin væri að­gengi­leg fyrir hunda?

„Verkin eru hengd í hunda­hæð þannig að það er auð­velt að skoða þau ef maður er hundur en ég get ekki sagt til um það hvernig þeir upp­lifa sýninguna. En allir hundar eru vel­komnir og ég í­mynda mér að litirnir höfði til þeirra.“

Fritz segir alla hunda vera velkomna á sýninguna.
Mynd/Fritz Hendrik IV

Heims­mynd manns og hunds

Verk Fritz Hendriks fjalla gjarnan um þá ó­með­vituðu svið­setningu sem ein­kennir lífið, listir og menningu. Þá saman­standa sýningar hans oftast af heild­rænni frá­sögn og list­rænni heims­mynd sem á­horf­endur stíga inn í. Spurður um hvort því sé eins farið með Regn­boga hunds segir hann:

„Já, ég held það. Það verður til ein­hver á­kveðin stemning hérna inni, sér­stak­lega með því að lækka vegg­hæðina í sam­hengi við upp­hengið, síðan þessi lykt og lýsingin er líka að­eins dempuð til að líkja eftir því að þú sért inni í bíl.“

Að sögn Fritz segist hann upp­runa­lega hafa lagt upp með að gera létta og skemmti­lega sýningu, eins og hann sér fyrir sér per­sónu­leika hunda, en eftir því sem verkin tóku á sig mynd hafi hann rekist á dýpri til­vistar­legar spurningar.

„Ég sá fyrir mér að þetta væri bara ó­trú­lega kæru­leysis­leg og ligeglad sýning. En eftir því sem hug­myndin vatt upp á sig þá fór ég meira að vinna með þennan symból­isma í hug­myndinni að vera far­þegi í ein­hverju farar­tæki sem er að fara eitt­hvert og þú hefur enga stjórn á, þarft bara að sitja og njóta. En það að vera undir­gefinn og vera alltaf að sýna sína bestu hlið fyrir þeim sem er ofar manni, gerir mann kannski pínu bældan.“