Það hefði verið ansi nöturlegt ofan á allan samfélagsóttann og þunglyndið sem fylgdi upphafi kóróna­veirufaraldurs hér á landi ef einhver hefði líka tekið upp á því að fela nálar í matvælum fyrir almenning. Á þessu kveikir Jónína Leósdóttir og vekur samstundis áhuga lesanda í blábyrjun nýrrar bókar sinnar, Launsáturs, lögreglusögu sem gerist í fárinu í fyrra.

Launsátur fellur í flokk Covid-bóka, sem nú koma út líkt og á færibandi. Fyrir flesta er forvitnilegt að rifja upp hvernig við hugsuðum og hegðuðum okkur þegar faraldurinn skóp hvað mestan ótta í fyrravor.

Í viðtali vegna útgáfu nýju bókarinnar sagði Jónína að hún hefði verið að vinna allt aðra sögu sem hún ákvað að leggja til hliðar af því að hana langaði til að skrifa bók þar sem heimsfaraldurinn litaði líf persónanna. Það tekst ágætlega. Sagan mun síðar dæma hvort við munum enn betur kunna að meta svona sögur þegar horft verður til baka úr meiri fjarlægð.

Adam, annar hlutinn í tvíeykinu sem reynir að leysa sakamálagátuna, er forvitnileg og vel skrifuð persóna. Karakter hans gerir að verkum að maður les alltaf áfram og leiðist aldrei. Fengur er að fá að skyggnast í hans hugarheim, ekki síst þar sem Adam er af erlendu bergi brotinn. Hann stelur þó svolítið senunni frá lögreglukonunni Soffíu, sem er fyrrverandi eiginkona Adams.

Togstreitan sem getur fylgt því að fyrrverandi hjón vinni að lausn sakamáls er áhugaverð. Kannski verður vægi vinnu Adams í rannsókninni þó fullmikið á köflum. Ekki síst í ljósi þess að Soffía er atvinnumanneskja en Adam er amatör.

Einn meginkostur persónusköpunar er aftur á móti að höfundi tekst vel að sneiða fram hjá klisjum. Hliðarsögur eru líka ágætlega unnar og það er ekki síst þeim að þakka hve sagan rennur vel. Jónína tekur sig aldrei of alvarlega sem höfundur. Hún á auðvelt með að skrifa bækur sem fólk les án áreynslu sér til yndis og skemmtunar. Oft fylgir skarpt sjónarhorn á samfélagið og þá miklu áskorun sem felst gjarnan í því að vera manneskja og ösla lífsgötuna áfram.

Líklegt er að parið Adam og Soffía séu komin til að vera. Munu margir gleðjast yfir því, enda lesendahópur Jónínu trygglyndur.

Niðurstaða: Ágætlega fléttuð saga sem rennur ljúflega án þess að steyta nokkru sinni á skeri. Stak í bókamengi hinna fordæmalausu tíma.