Sýningin Stellingar – línulaga frásagnir, stendur yfir í BERG Contemporary á Klapparstíg.

Meðal þeirra sex listamanna sem eiga verk á sýningunni eru Áslaug Íris Katrín Friðjónsdóttir og Páll Haukur.

Áslaug Íris Katrín Friðjónsdóttir sýnir gólfverk, unnið með streng og litaðri fúgu, svo úr verður stór teikning á gólfinu. Verkið heitir Teikning.

„Þetta er endurgerð af verki sem ég setti fyrst upp árið 2015 í Hafnarhúsinu. Nú er ég að heimsækja verkið aftur og endurgeri það í nýju rými og með aðeins breyttum efniviði. Svört snúra er teikning í rýminu og til viðbótar nota ég efni sem ég hef notað mikið undanfarið, sem er lituð fúga, sem er hinn fasti punktur verksins,“ segir Áslaug. „Hugsunin er einföld. Línan liggur laus á gólfinu og þræðist í gegnum fúguna sem er mótuð í eins konar hóla eða hrúgur, ef það kæmi vindgustur eða fólk gengur fram hjá verkinu og rekst kannski aðeins í það gæti línan færst til og teiknað sig upp á nýtt. Svo eru hinir föstu punktar sem eru í bláum og grænum tónum og út í svart og hvítt sem vísa enn fremur í jörð og þyngd á móti hinum loftkennda og flæðandi streng. Þannig að verkið er bæði hverfult og stöðugt.“

Páll Haukur sýnir þrjár stórar teikningar og þrjár minni. „Ég kalla þær haustteikningar og í grunninn eru þær myndbirting lausra laufblaða sem er dreift um myndflötinn. Mér finnst haustið sem myndlíking vera mjög áhugavert. Í teikningunum ríkir ákveðin upplausn og laufblöðin, þegar þau eru fallin af trénu, mynda ástand þar sem heildin hefur leyst upp í parta sína. Teikningarnar kveikja hugmyndir um óstöðugleika og hringrás þar sem ægir saman táknmyndum náttúru og mennskra táknkerfa.“

Um þessa samsýningu segir Áslaug: „Það er virkilega gaman að sýna með þessum hópi listamanna og upplifa listaverkin saman í heild undir yfirskrift sýningarinnar.“

„Maður er upp með sér að vera í félagsskap svona flottra listamanna. Þetta er fólk sem maður hefur litið upp til lengi,“ segir Páll. Þess má geta að verk eftir Pál má sjá á þremur öðrum sýningum; samsýningu í Listasafni Reykjavíkur, samsýningu í Verksmiðjunni Hjalteyri og í Neskirkju.