Þetta er í sjöunda sinn sem viðburðurinn er haldinn hér á landi og fólk kemur saman og dansar fyrir heimi þar sem allir, óháð kyni og kynhneigð, fá að njóta sömu tækifæra án ótta við ofbeldi. Íslensk landsnefnd UN Women fagnar 30 ára afmæli í ár og því verður viðburðurinn sérstaklega veglegur í þetta sinn.

Líkt og fyrri ár er það plötusnúðurinn DJ Margeir sem mun stýra tónlistinni og fær hann til liðs við sig glæsilegan hóp tónlistarfólks sem mun sjá til þess að mannskapurinn hristi sig og skekji. Þá verður nýja FO-húfan til sölu á staðnum auk annars varnings og rennur ágóðinn til verkefna UN Women sem vinna að því að uppræta kynbundið ofbeldi um allan heim. Fólk er hvatt til að mæta með FO-húfurnar sínar á svæðið, nýjar sem gamlar, og taka sínar eigin FO myndir með „Insta-myndavélakassanum“ sem verður á staðnum. Þá verður spánýr FO varningur til sölu á staðnum í takmörkuðu upplagi. 

Á síðasta ári var viðburðurinn haldinn í yfir 200 löndum víðs vegar um heiminn, m.a. í Argentínu, Sjíle, Mexíkó, Bandaríkjunum, Kanada, Spáni, Tyrklandi, Ástralíu, Hong Kong og Filipseyjum. Á Íslandi kom fjöldi fólks saman á öllum aldri um allt land og var dansað gegn kynbundnu ofbeldi í Reykjavík, Akureyri, Neskaupsstað, Seyðisfirði, Höfn í Hornafirði, Hvammstanga, Reykjanesbæ og Borgarnesi. Samtakamátturinn var allsráðandi!

Milljarður rís viðburðir verða haldnir á eftirfarandi stöðum: Hörpu í Reykjavík, Íþróttahúsinu Neskaupsstað, félagsheimilinu Herðubreið á Seyðisfirði, Hvatastöðinni Hólmavík, Fosshótel á Húsavík, íþróttahúsinu á Sauðárkróki og Hofi á Akureyri.