Áhrifavaldurinn, förðunarfræðingurinn og þjálfarinn Alexandra Sif Nikulásdóttir, þekkt sem Ale Sif á Instagram, fékk afar ljót skilaboð frá fylgjanda á Instagram í gær eftir að hún var að kynna námskeið í samstarfi við Make-Up Studio Hörpu Kára í desember, þar sem hún mun kenna tækni fyrir glam förðun.

Alexandra deildi með fylgjendum sínum að hún hafi átt við mikinn kvíða síðastliðið ár sem og þurfa að fara í aðgerð en væri öll að koma til.

Í fyrrnefndum skilaboðum skrifaði fylgjandi hennar: „Æ þú ert að verða eins og múmía, ertu eitthvað mikið veik?“

Alexöndru var eðlilega brugðið og spurði hvort fólki þætti í lagi að senda slík skilaboð, hvort sem opna eða lokaða Instagram-síðu væri að ræða: „Öllu gríni sleppt, erum við bara á þessum stað, að ganga árið 2023, að okkur finnst í lagi að senda svona skilaboð?“ spurði Alexandra.

„Vinkonum mínum fannst að ég ætti að deila þessu með nafni viðkomandi. [Ég] er ekki vön að deila svona eða tala um svona nema þegar ég var ólétt og fólki fannst í lagi að kommenta á hvernig kúlan á mér liti út.“

„Múmía er lík sem er búið að varðveita!,“ benti Alexandra á og minnti fylgjendur sína á að hún deili aðeins brot af lífi hennar á Instagram líkt og flestir.

„Var að opna mig um kvíða og að ég hafi verið í aðgerð, sem er bara brot af lífinu mínu. Hvort tveggja hefur haft áhrif á sálina og líkamann. Á ekki einu sinni að þurfa að taka þetta fram,“ sagði hún og benti fylgjendum sínum á: „Hugsum áður en við sendum skilaboð.“

Fréttablaðið/Skjáskot
Fréttablaðið/Skjáskot