Belgískir fjölmiðlar slá því upp í dag að tónlistahátíðunum Tomorrowland og Rock Werchter verði líklegast aflýst þetta árið af völdum kórónaveirunnar.

Þjóðaröryggisráð Belgíu ræðir stöðuna þessa dagana eftir að borgarstjórarnir í Boom og Rotselaar þar sem tónlistarhátíðirnar fara fram óskuðu eftir því að það yrði lokað fyrir þær.

Um 320.000 gestir mæta árlega á Rock Werchter og var búið að staðfesta að Pearl Jam, The Strokes, Kendrick Lamar, System of a Down, Pixies og twenty one pilots kæmu fram ásamt fjölmörgum öðrum.

Tomorrowland er ein stærsta raftónlistarhátíð heimsins og stendur yfir tvær helgar í röð. Um 400.000 gestir mættu á hátíðina í fyrra þar sem allir helstu plötusnúðar heims koma saman.

Þá má oft sjá óvænt nöfn á Tomorrowland en á síðasta ári komu bæði Shaq og Paris Hilton fram.