Áki Ármann Jónsson, formaður Skotvís – Skotveiðifélags Reykjavíkur, segir ljóst að ekki hafi verið farið eftir grundvallarreglum við meðferð skotvopna á tökustað kvikmyndarinnar Rust þar sem stjörnuleikarinn Alec Baldwin varð samstarfskonu sinni að bana og slasaði annan alvarlega með voðaskoti.

Áka Ármanni finnst líklegt að tveimur kúlum hafi verið hleypt af.

„Eins og við kennum á námskeiðum þá á aldrei að meðhöndla vopn nema með öryggið á og að það sé óhlaðið en alltaf á að fara með vopn eins og þau séu hlaðin,“ útskýrir Áki.

„Jafnvel þótt maður sé viss um að þau séu óhlaðin. Og aldrei að beina byssu að neinu nema maður sé viss um að maður ætli að skjóta, að þetta sé bráðin sem maður ætli að veiða.“

Áki segir ljóst, líkt og fréttir benda til, að alvöru kúlur hafi verið í byssu leikarans, án þess að hann vissi af því. Þegar hann er spurður hvernig ein kúla geti sært tvo segir Áki:

„Sko, af því að það var verið að gera vestra þarna, þá er þetta líklega annaðhvort riffill eða skammbyssa og manni þætti líklegra að þetta hefðu verið tvö skot sem hann hefði þá verið að skjóta úr skammbyssu, og það hafi bara verið alvöru kúlur og að hann hafi skotið tveimur skotum,“ segir Áki.

„Það svona er helst sú sviðsmynd sem manni dettur í hug. Af því annar fær hana í öxlina og hinn í magann. Ég sé ekki alveg fyrir mér að sama kúlan nái því nema með einhverri ótrúlegri atburðarás,“ segir Áki. „En maður skilur ekki hver kemur með alvöru kúlur á svona sett. Nema þetta hafi átt að nota í öðrum tilgangi seinna. Þetta er náttúrulega algjört grundvallaratriði.“

Áki Ármann Jónsson er formaður Skotvís.
Mynd/aðsend