Kammermúsíkklúbburinn heldur tónleika vetrarins í Norðurljósasal Hörpu sunnudaginn 14. nóvember klukkan 16.

Þar flytur Ssens-strengjatríóið frá Noregi þrjú verk, eftir Schubert, Hafliða Hallgrímsson og Beethoven.

Ssens-tríóið, sem stofnað var 2014, fékk Hafliða til að skrifa fyrir sig strengjatríó sem frumflutt var í Osló í febrúar 2020, tólf stutta kafla, sem saman mynda sveig.

Eftir þann flutning tók efnið að þróast með tónskáldinu uns úr varð nýtt tríó, byggt á hinu fyrra en þó óháð því, og nú er frumflutt á Íslandi.

Tríóið nefnir Hafliði Lebensfries (Lífsstrigi) eftir málverki Edvards Munch, og tileinkar það Ssens-tríóinu.