Inga Valborg starfar á göngudeild fyrir kransæðasjúklinga og hefur gert meira og minna frá stofnun hennar árið 2004. Deildin er staðsett í Hjartagáttinni á Landspítalanum við Hringbraut.
„Sérstaða þessarar deildar er að hún fylgir einstaklingum og aðstandendum þeirra eftir yfir lengri tíma, eftir útskrift. Að þjónustunni kemur fjölfaglegt teymi sem samanstendur af hjúkrunarfræðingum, hjartalæknum, sjúkraþjálfurum, sálfræðingi, næringarfræðingum, kynfræðingi, lyfjafræðingi og félagsfræðingi. Veitt er einstaklingsmiðuð fræðsla um sjúkdóminn, lyfin og ráðlagðan lífsstíl, auk þess er veitt ákveðið eftirlit og mat á ákveðnum þáttum. Þá er veitt lífsstílsmeðferð og stuðningur til að takast á við sjúkdóminn og breyta um lífsstíl yfir lengri tíma (eitt ár),“ útskýrir Inga Valborg.
600 kransæðavíkkanir á ári
„Einstaklingurinn hittir hjúkrunarfræðing í einstaklingsviðtölum. Aðrir í teyminu koma að skipulagi þjónustunnar, eru ráðgefandi og koma að meðferðinni eins og þörf þykir. Við erum ekki eina slíka deildin því önnur er starfrækt á Akureyri og síðan er Reykjalundur með hjartaendurhæfingu sem veitir meðal annars einstaklingum með kransæðasjúkdóma þverfaglega meðferð í nokkrar vikur sem hefur skilað góðum árangri,“ segir hún. „Sjúklingar fá fræðslu og stuðning eftir kransæðavíkkun. Á Íslandi eru gerðar um 600 kransæðavíkkanir árlega, bæði hjá konum og körlum.“
Lífsstíllinn skiptir miklu máli
Inga Valborg segir að lífsstíll hafi gríðarlega mikil áhrif á hjartasjúkdóma. „Hann getur legið í erfðaefni okkar en lífsstíllinn getur haft áhrif á hraða framgangs sjúkdómsins. Það að vera án tóbaks, hreyfa sig reglulega eins og að ganga í 30 mínútur á dag, forðast yfirþyngd, hafa góða blóðsykursstjórnun, meðhöndla háþrýsting ef hann er til staðar, meðhöndla blóðfituröskun ef hún er til staðar, forðast streitu, fá nægan svefn, drekka ekki áfengi eða lítið af því og sjaldan og borða skynsamlega getur hægt á framgangi sjúkdómsins,“ bendir hún á og heldur áfram:
„Konur sem hafa haft einhver vandamál tengd meðgöngu eins og meðgöngusykursýki, háþrýsting á meðgöngu, fósturlát, fætt fyrir tímann svo eitthvað sé nefnt, eru í meiri hættu á að fá hjarta- og æðasjúkdóma en aðrar konur. Einnig konur sem fara snemma á breytingaskeiðið, það er fyrir fimmtugt og/eða fá mikil einkenni á breytingaskeiði. Þær ættu að huga vel að öðrum áhættuþáttum og fara snemma í eftirlit, svona um fertugt og láta athuga blóðþrýstinginn, en hann getur verið breytilegur yfir ævina til dæmis hækkað á breytingaskeiði, kólesteról, blóðsykur og aðra áhættuþætti. Láta meta hvort þörf er á sérstöku eftirliti og lífsstílsmeðferð. Fara síðan reglulega í eftirlit eftir það. Sjúklingar eru af báðum kynjum en konurnar eru oft eldri þegar þær fá sjúkdóminn.“
Góð fræðsla
Þegar Inga Valborg er spurð hvort Íslendingar séu framarlega þegar kemur að lækningu á hjartasjúkdómum og eftirfylgni, svarar hún því játandi. „Við höfum komið mjög svipað út í þeim samanburði sem gerður hefur verið. Við fylgjumst vel með öllum nýjungum á sviðinu og fylgjum alþjóðlegum klínískum leiðbeiningum við skipulag á þjónustu og við val á okkar meðferðum. Fræðsla er stór hluti af mínu starfi. Mikill hluti af viðtali á göngudeildinni er fræðslusamtal um sjúkdóminn, meðferðina og ráðlagðan lífsstíl. Þá höfum við tileinkað okkur aðferðir áhugahvetjandi samtals til þess að örva áhugahvöt einstaklingsins enn frekar til að bæta lífsstílinn og fylgja meðferð.“
Inga Valborg segir að starfið sé afar fjölbreytt. „Einstaklingarnir eru hver öðrum ólíkir á göngudeildinni, þá fylgir starfinu þverfaglegt samstarf og mikil samskipti við aðra hjúkrunarfræðinga og annað fagfólk. Einnig er áhersla á að fylgjast vel með í faginu og tileinka sér allar nýjungar. Síðan tengjumst við rannsóknarvinnu af og til og kennslu til hjúkrunarnema sem koma í vettvangsheimsókn til okkar,“ segir hún.
Stöðug þróun
„Við erum í stöðugri þróun. Við höfum verið að auka áherslu á teymisvinnuna hjá okkur, verið að leita leiða til að auka aðgengi að góðu fræðsluefni um sjúkdóminn og því sem honum tengist. Þá erum við að horfa til aukinnar fjarþjónustu á næstunni til að auka þjónustu við þá sem búa utan höfuðborgarsvæðisins og við þá sem eiga erfitt með að koma til okkar. Við erum líka í tilraunaverkefni með gagnvirkt app frá Sidekick Health sem ætlað er að veita einstaklingum fræðslu og stuðning eftir kransæðavíkkun yfir einhvern tíma ásamt því að vera með ákveðið eftirlit eða einkennamat í gegnum appið. Mjög spennandi viðbót við þá þjónustu sem fyrir er.
Sjúklingar fá góðan stuðning með fjórum til fimm fimmtíu mínútna viðtölum yfir eins árs tímabil, fleiri ef þörf þykir. Þar fyrir utan hitta þeir sinn hjartalækni yfirleitt tvisvar á árinu. Þá fá þeir viðtal við aðra í teyminu ef þörf þykir. Við fylgjum klínískum leiðbeiningum um eftirmeðferð kransæðasjúklinga frá evrópsku hjartasamtökunum en sérsníðum meðferðina eftir þörfum hvers og eins. Það sem okkur vantar helst er að kransæðasjúklingar geti fengið stuðning hver frá öðrum í kjölfar veikindanna, jafningjastuðning. Þeir sem fara á Reykjalund fá einhvern vísi að slíkum stuðningi,“ segir Inga Valborg.