Elín Birna Bjarnfinnsdóttir, umsjónarmaður íþrótta- og samkomuhússins Staðar á Eyrarbakka, hefur náð miklum árangri í hreyfingu og segir að Lífshlaupið hafi átt stóran þátt í að koma henni af stað og halda henni við efnið.

Elín stundaði íþróttir þegar hún var yngri en hætti svo að hreyfa sig á fullorðinsárum, en árið 2014 fannst henni hún þurfa að byrja að hreyfa sig og segir að það hafi ekki verið erfitt að byrja.

„Í júlí 2014 byrjaði ég að ganga og ég hef að mestu haldið mig við göngur frekar en að hlaupa. Ég hljóp í smá tíma en gerði það ekki lengi vegna þess að mér finnst skemmtilegra að labba,“ segir hún.

Vildi geta skráð sig

Ein af leiðunum til að taka þátt í Lífshlaupinu er í gegnum einstaklingskeppni, en allir geta tekið þátt og skráð niður daglega hreyfingu sína allt árið.

„Þetta skráningarferli hjá Lífshlaupinu hjálpaði mér mikið að finna hvatningu. Það að fara út og geta skráð sig til að sýna fram á að hafa gert þetta tosaði í mig og dreif mig af stað,“ segir Elín. „Ég hugsaði oft með mér: „Ég er ekki búin að fara neitt í dag og það þýðir að ég get ekki skráð mig, svo ég verð að fara.“ Það er mikil hvatning að geta skráð sig einhvers staðar og séð þetta svart á hvítu.

Elín er hrifin af því að ganga um fjöruna á Eyrarbakka.

Eftir að ég byrjaði að fara út hef ég náð að létta mig aðeins, en það var aldrei aðalmálið, heldur miklu frekar að komast í hreyfingu og útiveru,“ segir Elín. „Mér finnst gott að vera úti og ég tek mikið af myndum á göngunum mínum. Ég er til dæmis mikið í fjörunni á Eyrarbakka, mér finnst hún æðisleg. En ég fer líka víða, til dæmis á Selfoss og í Hellisskóg.“

Verðlaun og tvær viðurkenningar

Elín hefur verið öflugur þátttakandi í Lífshlaupinu frá upphafi.

„Ég held að ég hafi skráð mig síðan það byrjaði fyrst,“ segir hún. „Ég hef svo tvisvar fengið viðurkenningu fyrir mestu hreyfinguna á mínum vinnustað og árið 2016 fékk ég verðlaun frá Lífshlaupinu fyrir að skrá mig allt árið, sem var auðvitað líka mjög hvetjandi.“

Elín segir að bæjarbúar á Eyrarbakka hafi tekið eftir kraftinum í henni.

„Í Þorrablótum er ég alltaf tekin fyrir af því að ég er alltaf á ferðinni,“ segir hún og hlær. „Það hefur verið mjög skemmtilegt. Það er gaman að maður gefi samfélaginu smá lit og að fólk taki eftir árangrinum.“

Elín hefur gaman af því að taka fallegar myndir í gönguferðum sínum.

Það er kannski engin furða að fólk taki eftir dugnaðinum í Elínu miðað við afrekin.

„Ég hef náð því að fara út að hreyfa mig alla daga undanfarið og það er markmið sem hvetur mig áfram. Ég var til dæmis að klára janúar og í þeim mánuði náði ég að ganga 310 kílómetra, sem er frábært, sérstaklega miðað við veðurfar og annað,“ segir hún. „Ég reyni að labba 10 á dag, en mest hef ég farið 21 kílómetra á einum degi.

Mér líður mikið betur eftir að ég byrjaði að hreyfa mig svona og ég er ekki viss um að ég væri á þessum stað og að hreyfa mig svona mikið ef Lífshlaupið hefði ekki komið til sögunnar,“ segir Elín.

Lætur veður ekki stoppa sig

Elín hefur ekki látið göngurnar einar duga.

„Ég hef líka tekið hjólaferðir hérna um nágrennið yfir sumarið. Það er líka mjög skemmtilegt. Ég hef alveg látið ræktina vera í gegnum faraldurinn en maður veit aldrei hvort maður byrjar aftur þar,“ segir hún.

Í bili ætlar hún bara að halda áfram á sömu braut og segir ákveðin:

„Ég ætla að halda ótrauð áfram og læt veður og vind ekki stoppa mig!“