Viktor Weisshappel opnar sýninguna Lífshlaupið í Máli og menningu á laugardaginn en yfirskrift sýningarinnar segir hann vísa til hraðans í samfélaginu sem verður stöðugt meiri frá degi til dags.

Sýningin stendur á löngum löppum í jakkafataskóm sem birtast í útskornum veggverkum sem listamaðurinn segir ætlað að myndgera á kómískan hátt hversu erfitt getur verið að lifa og fóta sig í núinu.

Skrítnir tímar

„Við gerð nýju verkanna var ég að hugsa um samfélagið í dag. Þetta eru skrítnir tímar sem við lifum akkúrat núna,“ segir Viktor um innblásturinn sem hann sótti í ólíkar áttir. „Það virðist allt vera að fara til fjandans og fólk er of upptekið til að spá í því. Allir í kappi um að ná sem lengst og brenna jafnvel út í kjölfarið. Ég vildi myndgera þetta á einhvern fyndinn hátt. Verkin samanstanda af löngum útskornum löppum í jakkafataskóm sem sveigjast og teygjast í ýmsar áttir,“ segir Viktor og bætir við að hugsjónin í verkunum á sýningunni hafi þróast hægt og rólega.

„Formið kom bara eftir á. Fyrst kom hugmyndin og svo fór ég að vinna myndirnar. Þegar þær voru tilbúnar fór ég að hugsa um hvernig lokaafurðin gæti verið. Ég ákvað að skera verkin úr rauðu plexigleri sem hægt er að hengja á vegg.

Fann köllunina í menntó

„Ég var á menntaskólaaldrinum þegar ég áttaði mig á því að mig langaði að verða grafískur hönnuður. Þá byrjaði ég að skanna inn teikningar og vinna þær áfram í tölvunni. Þar opnaðist nýr heimur fyrir manni. Einnig var ég bara hrifinn af alls kyns plötuumslögum og slíku sem leiddi mig í þessa átt,“ segir listamaðurinn sem lærði grafíska hönnun í Listaháskóla Íslands að loknum menntaskóla. „Árið 2012 byrjaði ég að læra almennilega hvað grafísk hönnun væri og fór að fá áhuga á leturgerðum og uppsetningu.“

Eftir námið í LHÍ fór Viktor að vinna á auglýsinga- og hönnunarstofum og sinnti eigin verkefnum samhliða því. „Ég hef mestmegnis verið að vinna hér heima en fór til Stokkhólms að vinna á stofu sem heitir Essen International sem hafði mikil áhrif á nálgun mína. Þar byrjaði ég að kafa dýpra og vinna meiri hugmyndavinnu áður en ég hófst handa. Mér finnst það mikilvægt því hugmyndin er það sem skiptir mestu máli,“ segir Viktor.

Ódysseifskviða hönnuða

„Ég var að opna hönnunarstofu með Alberti Muñoz,“ segir Viktor þegar talið berst að þeim mörgu járnum sem hann er með í eldinum. „Við vorum að vinna saman á Jónsson & Lemack’s og ákváðum að opna eigin stofu sem ber nafnið Ulysses. Við sérhæfum okkur í mörkun með það að markmið að skapa grípandi ásýnd fyrir okkar kúnna og framkvæma djarfar hugmyndir.“

Þá rekur Viktor einnig prentsölu ásamt Þórði vini sínum. „Við erum að selja prent eftir breiðan hóp listamanna og viljum virka sem hvetjandi afl í listflóru Íslands. Við leggjum upp úr breiðu úrvali verka og að það endurspegli þá grósku sem ríkir í íslensku prenti og myndlist. Vefnum er ætlað að hvetja til sköpunar og auðvelda milliliðalaus kaup á íslensku prenti,“ segir hann.

Alls konar umslög

Viktor hefur aldrei misst sjónar á plötuumslögunum sem höfðu mótandi áhrif á hann í byrjun og fjölmörg verkefna hans tengjast tónlist á einhvern hátt og þá ekki síst hljómplötum.

„Ég er heppinn að eiga vini í tónlist og listum og hef gaman af því að vinna með þeim í alls kyns verkefnum,“ segir Viktor sem hlaut nýlega verðlaun frá ADCE fyrir Útmeða-bæturnar sem hann gerði fyrir Geðhjálp og Rauða krossinn. Með verkefninu tók hann fyrir tilfinningar og andlegt ástand sem fólk er gjarnt á að fela og bera í hljóði.

„Ég gerði ellefu bætur sem hægt er að strauja á föt og bera þannig utan á sér. Kvíði, reiði, feimni, einmanaleiki, sorg, ADHD, félagsfælni, ranghugmyndir, stress, vonleysi, þunglyndi og meðvirkni eru þannig orðin að fylgihlutum sem óþarfi er að skammast sín fyrir.“

Gallery Port: Upplagt stendur að sýningunni sem verður opnuð á laugardaginn klukkan 16 í Máli og menningu við Laugaveg 18.