„Ég er gift fimm barna móðir í Kópavoginum og reyni ávallt að sinna fjölskyldunni vel samhliða vinnu og tómstundum. Áhugamálin eru mörg en þau eru meðal annars golf, skíði, fótbolti og handbolti auk þess sem ég hef mikinn áhuga á matar- og drykkjarmenningu og smakka góð vín. Svo elska ég að ferðast,“ segir Anna Sigríður sem kann svo sannarlega að njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða.

Þegar að kemur að lífsgæðum fjölskyldunnar finnst henni skipta máli að hægt sé að nýta sér heimsendingarþjónustu. „Það eru klárlega lífsgæði að geta nýtt sér þessa þjónustu. Hún lengir viðverutímann heima umtalsvert og það eru gæðastundir.“

Anna Sigríður segist fagna því hversu framboðið í heimsendingarþjónustu er orðið fjölbreytt.

Hvað er það helst sem þú ert að kaupa þegar kemur að því að fá vöru senda heim?

„Það er helst matvara, gjafavörur, fatnaður og áfengi. Svo hefur það komið sér ótrúlega vel þegar við hjónin erum í útlöndum og krakkarnir heima að geta pantað mat og látið senda heim. Þá er oft ekkert til í ísskápnum. En ég held að ef maður myndi eingöngu nota þessa þjónustu þá myndi maður sakna þess að hitta ekki fólkið úr hverfinu í búðinni sem er ávallt mjög skemmtilegt. Það er að segja þessi mannlegu samskipti eru svo nauðsynleg fyrir okkur. En á móti færi maður sennilega oftar í hár, neglur, einhvers konar snyrtingu og fleira til að uppfylla þessi nánu samskipti.

Sömuleiðis finnst mér algjör snilld að sumar blómabúðir eru komnar með sjálfsala þar sem hægt er að kaupa af þeim vendi og fleira eftir lokun. Þetta kemur ekki heimsendingum á vörum við en er algjör snilld í flóruna og ég held að margir muni nýta sér þetta. Allt til að gera lífið einfaldara,“ segir Anna Sigríður að lokum og hlakkar til að fylgjast með þróuninni í framtíðinni og hvað kemur næst. ■