Allt tekur breytingum í heimi hér og tónlistin er þar engin undantekning eins og músíkantinn Einar Ágúst Víðisson þekkir á eigin skinni. Hann er núna að senda frá sér nýtt lag, Þakka þér, en það er akkúrat háttur dægurlagasöngvara á seinni árunum að gefa út lög fremur en plötur.

„Þetta er lag sem ég fékk í hendurnar fyrir margt löngu, fyrir nálega tuttugu árum, frá John vini mínum Gordon í Danmörku,“ rifjar söngvarinn upp. Svo leið og beið þangað til annar vinur heyrði lagið fyrir tilviljun. „Og þá var ég bara áminntur um það hversu gott það er.“

Einar Ágúst segir lagið vera ballöðu – og gott betur. „Þetta er vals, maður lifandi, í þremur fjórðu takti, svo þetta er alvöru.“

Og textann á söngvarinn sjálfur. „Hann er þakkaróður til móður minna og barnsmæðra, sem eru þrjár, eftir því sem ég best veit, en lagið kom út á afmælisdegi frumburðar míns, 16. september,“ segir Einar Ágúst. „En þakklætið er svo mikilvægt. „Þar er lífsfyllingin komin, sjálf frumskylda hamingjunnar.“

Og honum fannst einfaldlega tími til kominn að þakka konum þessa lands í texta lagsins. „Já, heldur betur. Við karlmennirnir erum búnir að misnota konur og börn um aldir sem loksins núna á síðustu misserum eru að brjótast út úr myrkri eitraðrar karlmennsku. Og það er bara afar þakkarvert að það skuli loksins vera að takast,“ segir söngvarinn og horfir loks inn á við.

„Sjálfur hef ég oft og tíðum verið grimmur og kjaftfor. Og ég hef reglulega þurft að segja við sjálfan mig, haltu kjafti, Einar Ágúst. Það er svo auðvelt að reiðast og fyllast svo af einhverri sjálfsvorkunn sem blindar manni alla sýn. Svo það er mikilvægt að staldra við, horfa um öxl, og þakka fyrir sig. Þannig líður manni best,“ segir Einar Ágúst og minnir á að hægt er að nálgast lagið, Þakka þér, á öllum helstu streymisveitum.