Á Akranesi er Karen Jónsdóttir, ávallt kölluð Kaja, með Matarbúr Kaju, sem býður upp á lífrænt vottaðar matvörur eftir vigt og í smásölupakkningum. Þar er einnig kaffihúsið Café Kaja með lífrænt kaffi, te og hollar, lífrænar kræsingar, svo sem samlokur, bakkelsi og sæta bita úr besta hráefni sem völ er á.

Kaja trúir því staðfastlega að við séum það sem við borðum og með þann boðskap stofnaði hún Kaja Organic, Matarbúr Kaju og Café Kaju sem hefur blómstrað á Skaganum undanfarin ár.

Regla Kaju er einföld: Allar vörur eru lífrænar, umhverfisvænar og gæðin í hámarki. Nú hefur Kaja bætt enn við matarflóruna og opnað Salatbar Kaju sem er kærkomin nýjung.

Það er aldrei leiðinlegt að borða salat úr Salatbar Kaju, enda fádæma fagurt fyrir augað og einstök sælkeraupplifun fyrir bragðlaukana. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON

Gott salat gerir hvern dag betri

„Gott salat gerir hvern dag betri enda mitt uppáhald. Fjölbreytt samsetning gerir salat aldrei leiðinlegt að borða,“ segir Kaja, sem er iðin við að prófa nýjar samsetningar og brögð. Salatbarinn verður með ólíku sniði en hefð er fyrir, enda ekki boðið upp á kjöt.

„Við keyrum á fiski og prótíni úr jurtaríkinu auk osta frá Bíobúi og lífrænum eggjum frá Nesbúi. Við skiptum Salatbarnum upp í prótín, kolvetni og fitu. Hver og einn velur á sinn disk eða box, ef það er tekið með. Fitan er í grunninn ólífuolía og repjuolía frá Móður Jörð, en úr þeim búum við til ýmsar salatdressingar. Toppurinn er svo fræblöndur og þurrkaðir ávextir sem hægt er að velja úr.“

Hráefnin eru merkt með K fyrir ketó, V fyrir vegan og GL fyrir glútenlaust svo allir geta sett saman salat sem hentar þeirra mataræði.

„Við munum þreifa okkur áfram næstu daga svo Salatbarinn er ekki alveg fastmótaður. Við vonum svo bara að Skagamenn verði sáttir við þessa nýjung, en það er orðið langt síðan salatbar var á staðnum,“ segir Kaja og hlakkar til að bjóða viðskiptavinum upp á þessa nýjung á Skaganum. ■