„Almenningur leitar leiða til að bæta líf sitt og heilsufar og þar gegnir hollt mataræði lykilhlutverki. Neytendum er ekki lengur sama hvaðan matvælin koma og hvernig þau eru framleidd. Uppruni og framleiðsluaðferð ráða mestu um gæðin. Vottuð lífræn ræktun er trygging neytenda fyrir því að fæðan sé framleidd með aðferðum sem stuðla að háu næringargildi, hreinleika og góðri meðferð náttúrunnar, að ógleymdri velferð búfjár,“ segir Gunnar.

Aftur til fortíðar

Framtíð lífrænnar ræktunar helst í hendur við samkeppni við tæknivædda stórræktun, verksmiðjubúskap og erfðabreytta ræktun.

„Hér áður fyrr voru matvæli að mestu framleidd með lífrænum aðferðum, án tilbúins áburðar og eiturefna, jarðvegurinn var auðgaður með búfjáráburði, moltu og öðrum lífrænum efnum. Ólíkar jurtir voru ræktaðar á víxl til að viðhalda frjósemi, þar á meðal jurtir sem mynda köfnunarefni og aðrar notaðar til áburðar. Þessar náttúrulegu aðferðir eru reyndar enn notaðar við framleiðslu á um 80 prósentum allra matvæla í heiminum,“ upplýsir Gunnar.

Þegar tilbúinn áburður og fjölbreytt flóra varnarefna til ræktunar á fóðri og matjurtum komu til sögunnar hófst hins vegar þróun sem enn plagar landbúnaðinn.

„Við það byrjaði jarðsambandið við lífríki gróðurmoldarinnar að rofna. Búfé var tekið af beitilandi og fóðrað á kjarnfóðri og vexti búfjár viðhaldið með notkun hormóna og sýklalyfja. Undir lok síðustu aldar innleiddu svo líftæknifyrirtæki erfðabreyttar plöntur, með fyrirheitum sem aldrei rættust. Ræktun þeirra jók notkun illgresis- og skordýraeiturs og fyrirheit um aukna uppskeru og næringargildi, svo og mótvægi við þurrka og flóð, hafa reynst vísindalega ómöguleg. Nú er hins vegar hvarvetna litið á lífræna ræktun sem leið til alhliða framfara, betra umhverfis og lífshátta,“ greinir Gunnar frá.

Náttúrulegar aðferðir eru enn notaðar við framleiðslu á um 80% matvæla í heiminum og munu aukast vegna vitundarvakningar um ávinning af því fyrir heilsu og umhverfi. MYND/GUNNAR Á. GUNNARSSON

Gervikjöt ræktað í tönkum

Gunnar er spurður hvort lífræn búfjárrækt sé betri en önnur búfjárrækt, en áform hafa verið um að leggja hana niður og framleiða í staðinn kjöt í verksmiðjum.

„Jú, vísindamenn hafa nýlega fleygt fram tillögum um að flytja skuli framleiðslu búfjárafurða yfir á tilraunastofur. Dæmi um það eru gervikjöt, til dæmis hamborgarinn óborganlegi (e. Impossible Burger) og frumuræktað kjöt þar sem dýrafrumur eru ræktaðar í tönkum á tilraunastofum. Hvoru tveggja inniheldur erfðabreytt efni og blöndu úr mikið unnum íblöndunarefnum, en án þess að nokkrar rannsóknir hafi verið lagðar fram um næringargildi þeirra. Umhverfiskostnaður og neikvæð áhrif slíkra afurða á heilbrigði neytenda kunna því að vega þyngra en mögulegir kostir þess fyrir umhverfið að leggja niður búfjárrækt. Hér er því verið að skapa ný vandamál í stað þess að leysa þau,“ svarar Gunnar.

Ef útkoman yrði í reynd erfðabreytt kjötlíki, sem á Evrópumarkaði yrði að merkja sem erfðabreytt matvæli, yrði þá líklegt að neytendur slægjust um aðgang að vörunni?

„Nei, þvert á móti,“ svarar Gunnar. „Í Bandaríkjunum er rekið öflugt vottunarkerfi, sem vottar matvæli sem EKKI innihalda erfðabreytt hráefni. Neytendur vilja ekki erfðabreytt ef þeir eiga kost á öðru.“

Geithvönn (Angelica sylvestris). Söfnun villtra jurta er hæf til lífrænnar vottunar; þær eru oft notaðar í lífrænar snyrtivörur. MYND/GUNNAR Á. GUNNARSSON

Mannkyn mettað með lífrænum matvælum

Stundum er haldið fram að lífræn ræktun sé gamaldags aðferð til að framleiða matvæli, en Gunnar segir tímana nú breytast ört.

„Áður bar mikið á slíkum viðhorfum en nú verðum við vör við mun meiri áherslu á fæðuframleiðsluna sjálfa. Almenningur tengir heilsufar sitt í mun ríkari mæli beint við það hvernig matvæli eru framleidd, hvernig grænmeti og ávextir eru ræktuð, og hvernig búfé er fóðrað og hver aðbúnaður þess er. Sú hugsun er aðeins hænufeti frá meðvitaðri kröfu um sjálfbæran landbúnað, fæðuframleiðslu sem mengar ekki, ræktun sem verndar og eykur gróðurmoldina, landnýtingu sem eykur kolefnisbindingu, og svo framvegis.“

Heimurinn sé að vakna til vitundar um að lífrænar aðferðir séu öruggasta og besta leiðin til að uppfylla þessar kröfur.

„Neytendur átta sig á að lífrænar aðferðir eru hvorki gamaldags né óhagkvæmar, heldur nútímalegar og spennandi. Lífræn ræktun er besta vörn okkar gegn hættum sem að umhverfi okkar og heilsu stafar frá verksmiðjubúskap, eiturefnanotkun og erfðabreyttum lífverum. Við þurfum að endurmynda það besta úr fortíðinni og í landbúnaði er brýnast að endurmynda og varðveita gróðurmoldina (e. regenerative agriculture) og auka lífræna ræktun.“

Sumir hafa áhyggjur af því að uppskera lífrænnar ræktunar sé minni og hvort hún geti brauðfætt vaxandi mannfjölda í heiminum.

„Í fyrsta lagi er rétt að hafa hugfast að hungur meðal jarðarbúa stafar ekki af fæðuskorti heldur fátækt, í sambland við vald stórfyrirtækja á talsverðum hluta matvælaframleiðslunnar,“ svarar Gunnar því.

Samanburður á uppskeru- og framleiðnitölum sé oft mjög villandi hvað þetta varðar.

„Samanborið við tún, kornakur eða grænmetisræktun, sem fær ríkulegan skammt af tilbúnum áburði, er uppskera á flatareiningu oftast minni í lífrænni ræktun, einkum í byrjun aðlögunar, en eykst síðan þegar frá líður. En þá gleymist yfirleitt að taka mið af þeim gríðarlega (oft dulda/óbeina) kostnaði, sem hefðbundinn landbúnaður, byggður á mikilli efna- og orkunotkun, hefur í för með sér. Og oftast gleymist að nefna hvernig slíkur landbúnaður dregur smám saman úr frjósemi gróðurmoldarinnar og stuðlar að jarðvegseyðingu. Lífræn ræktun stefnir í allt aðra átt; hún byggir upp jarðveginn, eykur kolefnisbindingu hans og nýtir hann um leið til framleiðslu á næringarríkum matvælum án efnanotkunar.“

Umfeðmingsgras (Vicia cracca). Villt jurt af ertublómaætt; slíkar plöntur binda köfnunarefni eins og smárinn sem notaður er í lífrænni ræktun. MYND/GUNNAR Á. GUNNARSSON

Lífræn vottun nú talin sjálfsögð

Gildi vottunar hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum og á eftir að aukast enn frekar eftir því sem framleiðsla og viðskipti aukast. Um þann þátt eiga Vottunarstofan Tún og Matvælastofnun gott samstarf.

„Vottun lífrænnar framleiðslu er trygging neytenda og þeirra sem nota hráefni til vinnslu fyrir því að grunnkröfur um aðferðir og aðföng séu uppfylltar. Íslenskir framleiðendur voru lengi vel ekkert sérstaklega áhugasamir um vottun og litu á hana sem afskiptasemi, óþarfa kostnað og jafnvel ósanngjarnar kröfur vegna þess hve íslenskur landbúnaður sé hreinn og ómengaður. Nú er öldin önnur og flestir líta á þetta sem sjálfsagðan þátt í því að efla traust í viðskiptum og auka verðgildi vörunnar. Mikilvægi vottunar verður seint ofmetið og eftirlitið þarf að uppfylla kröfur um vinnubrögð og óhlutdrægni,“ útskýrir Gunnar.

Þótt ekki fari það alltaf hátt er margt mjög ánægjulegt að gerast á sviði lífrænnar ræktunar hér á landi.

„Á síðustu árum hafa til dæmis komið fram nýir framleiðendur á lífrænum matjurtum og búfjárafurðum í Skagafirði, Eyjafirði, Breiðdal, Berufirði, í Flóanum og víðar. Þá hafa tvö öflug fiskeldisfyrirtæki hafið lífræna aðlögun í laxeldi og nýr framleiðandi á þang- og þaraafurðum bættist við á liðnu ári. Nokkur gróin fyrirtæki halda áfram öflugu vöruþróunarstarfi í þurrvöru, mjólkurafurðum, unnum matvörum og kjötframleiðslu. Nýverið bættist sælgætisframleiðandi í hóp vottaðra og sömuleiðis fyrirtæki sem annast dreifingu á vottuðum afurðum frá löndum utan Evrópusvæðisins. Allt endurspeglar þetta aukinn áhuga almennings á lífrænum afurðum og virðingu fyrir vottunarkröfum,“ segir Gunnar.

Í samanburði við grannþjóðir okkar erum við þó enn eftirbátar.

„Við erum vissulega langt á eftir grannþjóðum okkar, en okkur finnst almennt viðhorf hér á landi vera jákvæðara en áður. Það er mjög eftirtektarvert að fylgjast með framvindu mála á vettvangi Evrópusambandsins, en á undanförnum áratug hefur vottað lífrænt nytjaland í aðildarlöndum þess aukist um tvo þriðju upp í 8,5 prósent, og verðmæti vöruveltu lífrænna afurða hefur á sama tíma tvöfaldast í 41 milljarð evra. ESB birti fyrir mánuði síðan aðgerðaáætlun til næstu tíu ára um þreföldun vottaðs lands í 25 prósent árið 2030! Þessi metnaðarfulla áætlun tekur á flestum meginþáttum framleiðslu- og neyslukeðjunnar, meðal annars með sérstakri áherslu á eftirspurn og traust neytenda, hlut lífrænna matvæla í opinberum innkaupum og matreiðslu, og stuðning við aðlögun í landbúnaði og fiskeldi.“

Gunnar segir að á kosningaári ætti það að vera keppikefli íslenskra stjórnmálamanna að kynna sér þessa stefnumörkun ESB og taka sér hana rækilega til fyrirmyndar í stefnuskrám og við næstu stjórnarmyndun.

„Að sama skapi þurfa kjósendur að halda málinu á lofti þegar nær dregur kosningum.“

Vottunarstofan Tún er á Þarabakka 3 í Reykjavík. Sími 511 1330. Netfang: tun@tun.is. Nánar á tun.is