Lífið

Lífið snýst um hreyfingu

Athanasia Kanellopoulou er grískur dansari og danshöfundur sem hefur unnið með mörgum helstu danshöfundum heims. Hún er á leið til landsins og verður meðal annars með námskeið í Kramhúsinu í lok september.

Athanasia Kanell­opoulou er grísk að uppruna en hefur búið utan heimalands síns í átján ár og dansað með nokkrum helstu danshöfundum heims. MYND/Giannis Hatziantoniou

Líf mitt og í raun okkar allra snýst um hreyfingu,“ segir Athanasia. „Ekki bara í dansi, hvernig við hreyfum okkur í rými, hvernig við hreyfum líkamann og andann, ferðumst yfir landamæri og á framandi slóðir. Ég hef sjálf verið útlendingur í átján ár, flutti frá heimaborginni minni, Aþenu, þegar ég var sautján ára til að læra í London, flutti að námi loknu til New York til að læra meira hjá Mörthu Graham og síðan til Evrópu. Ég dansaði með Tanztheater Wuppertal-Pina Bausch í Þýskalandi í sex ár, eftir það í tvö ár með Les ballets C de la B í Belgíu og hef undandarið dansað með Jasmin Vardimon dansflokknum í London.“

Athanasia segir að eftir þessa fjölbreyttu reynslu hafi hana langað til að ná áttum og líta inn á við. „Ég reyndi að greina hvaða áhrif þessir ólíku listamenn hafa haft á mig, líf mitt og dans. Ég fór að skoða hvernig dansari ég er og hvernig ég get best deilt þekkingu minni og reynslu með nemendum og ungum dönsurum.“

Í rannsóknum sínum hefur Athanasia reynt að finna út hvað hreyfir við fólki og fær það til að skapa. „Rannsóknir eru líka skapandi, að spyrja spurninga, skiptast á hugmyndum og byggja brýr milli ólíkra menningarheima. Ég hef líka mikinn áhuga á menntun og að láta reynslu og þekkingu ganga áfram til komandi kynslóða. Aðaláherslan hjá mér er að reyna að skilja flækjurnar í sálum okkar og hugum, að finna dýpstu þrár okkar og þráhyggju í samhengi við hvar við erum stödd í lífinu og samfélaginu. Ég byrja alltaf á líkamanum sem geymir í sér allar okkar upplifanir og minningar.“

Hún nefnir Pinu Bausch sem sérstaka fyrirmynd en hún var brautryðjandi í því að blanda saman dansi og öðrum listgreinum svo úr urðu einstök listaverk. „Það var einstök reynsla að dansa í flokknum hennar, reynsla sem hefur breytt sjónarhorni mínu á lífið, listina og hreyfingu og hvernig þetta kemur allt saman á einum punkti. Ég lærði meðal annars að lífið er mikilvægara en listin.“

Þetta er í þriðja sinn sem Athanasia kemur til Íslands og hún er mjög hrifin af landi og þjóð. „Ég hef unnið hér með listdansdeildinni í Listaháskólanum, Íslenska dansflokknum, Kramhúsinu og fleiri einkaskólum,“ segir hún og bætir við að sköpunarkrafturinn sé einstakur hérlendis. „Hér þyrstir dansara og aðra listamenn í að finna sjálfið og spegla samfélagið gegnum list sem gerir það að verkum að danslífið hér er afar spennandi.“

Námskeiðið í Kramhúsinu verður opið öllum sem vilja læra meira í nútímadansi. „Fyrri daginn verður áherslan á tækni, og hvernig við nýtum ólíka þætti eins og þyngdarafl, öndun og dýnamík í dansi og seinni daginn verður farið í grunnatriði í því að semja dansa og byggja upp atriði og kóreógrafíu. Ég hlakka mjög til að koma til Íslands og hitta unga dansara og danshöfunda og bæði deila minni þekkingu og læra af dönsurunum hér.“

Námskeiðið í Kramhúsinu verður helgina 29.-30. september milli fjögur og sex. Nánari upplýsingar og skráning á kramhusid.is.

Athanasia vinnur mikið með öndun, þyngdaraflið og spennu í danstúlkun sinni og semur dansa út frá þessum þáttum. MYND/Giannis Hatziantoniou

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Lífið

Friðrik Ómar fyrstur og Hatari síðastur

Menning

Eins og að klífa hæstu tinda heims

Lífið

Margt er gott að glíma við

Auglýsing

Nýjast

Konudagurinn, dagurinn hennar!

Leið eins og elti­hrelli

Freistandi konudagsréttir

Upplifa enn mikla skömm

Kvika er hryllingssaga um ástina

Leyfir gestum að húðflúra sig á sýningu

Auglýsing